„Ís­land boðaði til kosninga um helgina sem hefðu gert landið það fyrsta í Evrópu með fleiri konur en karla á þingi. En fagnaðar­lætin entust stutt: Síð­búin endur­talning leiddi í ljós að þau eru rétt undir kynja­jafn­vægi.“

Svo lýsir banda­ríski fjöl­miðillinn The Was­hington Post ís­lensku þing­kosningunum í frétt sem birt var í nótt.

Er­lendir fjöl­­miðlar víða um heim voru fljótir að flytja frétt­ir um sögu­­leg­an meiri­hluta kvenna á þingi hér­­lend­is eft­ir kosn­ing­arn­ar á laug­ar­­dag og því að yngsti þing­maður í sögu Al­þing­is, Lenya Rún Taha Ka­rim, hefði náð kjöri.

Það tók heldur ekki langan tíma fyrir þá að flytja frétt­ir af mis­tökum Ís­lend­ing­a við talninguna sem leiddi til áður­nefnds mis­skilnings. Í raun væri ekk­ert sögu­­legt við niður­­­stöður kosn­ing­anna, fjöldi kvenna á þingi væri sá sami og árið 2016 og yngsti þing­maður­inn hefði ekki náð kjöri, þrátt fyrir allt.

Reu­ters greindi frá þessu í nótt og segir að einungis þrjú lönd, Rúanda, Kúba og Níkaragva státi af fleiri konum en körlum á þingi, á meðan að Mexíkó og Sam­einuðu Arabísku Fursta­dæmin séu með jafn­margar konur og karla.

„Ís­land, eyja í Norður-At­lants­hafi með 371.000 íbúa, mældist efst á lista um kynja­­jafn­rétti í heiminum tólfta árið í röð í skýrslu Al­­þjóða­efna­hags­ráðsins (e. World Economic Forum) sem gefin var út í mars,“ segir í frétt Reu­ters.

Upp­haf­legar tölur gáfu til kynna að 33 kon­ur hefðu hlotið kjör til Al­þingis en eft­ir end­urtaln­ingu í Norð­vest­ur­­kjör­­dæmi kom í ljós að þær yrðu að­eins 30. End­urtaln­ing­in leiddi einnig í ljós að Lenya Rún hefði ekki náð kjöri, enda fóru jöfn­un­ar­­sæt­in á flakk þegar töl­ur í Norð­vest­ur­­kjör­­dæmi breytt­ust, þótt að­eins væri um litlar breytingar að ræða.

„Lofts­lags­breytingar höfðu verið stórt stefnu­mál í kosninga­bar­áttunni. Ein­stak­lega heitt sumar miðað við ís­lenska mæli­kvarða – 59 dagar með hita yfir 20 gráðum – og minnkandi jöklar hafa ýtt lofts­lags­breytingum upp á lista yfir kosninga­mál.

Það virðist hins vegar ekki hafa leitt til aukins stuðnings fyrir neinn hinna fjögurra vinstri flokka sem hafa barist fyrir frekari minnkun á kol­efnislosun en þeirri sem Ís­land hefur heitið undir Parísar­sátt­málunum,“ segir í frétt The Guar­dian um málið.