Heimspressan er farin að greina frá eldgosinu sem hófst í Meradölum á Reykjanesskaga í dag, en í flestum erlendum fréttum um málið er lögð áhersla á hversu skammt eldgosið er frá Reykjavík.

„Eldfjall er byrjað að gjósa nálægt höfuðborg Íslands Reykjavík,“ segir Reuters um málið.

Frétt breska götublaðsins Mirror hefst á svipuðum nótum, en þar er jafnframt bent á að eldgosið sé nálægt helsta flugvelli Íslands, Keflavíkurflugvelli. Og New York Post bendir á nálægðina við hið „goðsagnakennda“ Bláa lón.

Ásamt Reuters, Mirror og New York Post hafa ansi margir stórir erlendir miðlar fjallað um málið, en þar má nefna Bloomberg, Kanadíska ríkissjónvarpið, The Independent, og ABC.

Í umfjöllun allra ofantalinna fréttamiðla er bent á nálægðina við Reykjavík, og gjarnan bent á að gosið sé í 32 kílómetra eða tuttugu mílna fjarlægð frá höfuðborginni.

Þá taka miðlarnir flestir fram að ekki sé útlit fyrir að gosið hafi áhrif á flugsamgöngur að svo stöddu, þrátt fyrir að Keflavíkurflugvöllur sé í grennd við gosið.

Einnig er bent á að eldgos hafi átt sér stað á svipuðum slóðum í fyrra og virðist vekja athygli að það gos entist í sex mánuði.