Utan­ríkis­ráð­herra Banda­ríkjanna, Mike Pompeo, heim­sótti í dag Vestur­bakka Palestínu sem hefur mátt lúta her­námi Ísraela um ára­tuga­skeið. Flaug ráð­herrann í þyrlu yfir svæðið og heim­sótti meðal annars Psa­got-vín­gerðina sem er stað­sett skammt frá Ram­allah og er í eigu auðugra banda­rískra stuðnings­manna Banda­ríkja­for­seta.

Þykir vín­gerðin afar um­deild í ljósi þess að hrá­efnið í vínin er ræktað á palestínskri grundu en vínið er þó merkt þannig að það sé fram­leitt í Ísrael. Málið hefur ratað fyrir dóm­stóla sem hafa úr­skurðað að vínið skuli merkt upp­runa­stað sínum, Vestur­bakkanum.

Heim­sóknin þykir sögu­leg en að sama skapi um­deild enda er um að ræða fyrstu heim­sókn hátt­setts erind­reka frá Banda­ríkjunum til Vestur­bakkans. Þá heim­sótti ráð­herrann einnig Gólan­hæðir, svæði sem Ísraelar her­tóku af Sýr­lendingum í sex daga stríðinu árið 1967 og deilt hefur verið um æ síðan. Sagði Pompeo við blaða­menn að af­staða Banda­ríkjar­stjórnar til hinna her­numdu svæði hefði verið röng um langt skeið. Á Gólan­hæðum hélt hann stutta ræðu og sagði hæðirnar mikil­vægan hluta af Ísrael.

Eins og búast mátti við hefur heim­sókn Pompeos fallið í grýttan jarð­veg. Palestínskir leið­togar hafa sagt að heim­sóknin sé hrein og klár ögrun. Þá kvörtuðu sýr­lensk stjórn­völd til Sam­einuðu þjóðanna og sögðu heim­sóknina vega gegn full­veldi Sýr­lands.

Ár er liðið frá því að Pompeo greindi frá þeirri stefnu­breytingu Banda­ríkja­stjórnar að hin her­numdu svæði stönguðust ekki á við al­þjóða­lög. Sú stefnu­breyting olli mikilli ólgu meðal Palestínu­manna sem sjá Vestur­bakkann sem hluta af sjálf­stæðu ríki Palestínu í nánustu fram­tíð.

Donald Trump, frá­farandi Banda­ríkja­for­seti, og með­limir ríkis­stjórnar hans hafa verið dyggir banda­menn Benja­mins Netanyahu, for­sætis­ráð­herra Ísraels.

Trump viður­kenndi til að mynda yfir­ráða­rétt Ísraels yfir hinum áður­nefndu her­numdu svæðum á síðasta ári. Áður hafði hann tekið þá um­deildu á­kvörðun að flytja sendi­ráð Banda­ríkjanna frá Tel Avív til Jerúsalem og viður­kenna hina forn­frægu borg sem höfuð­borg Ísraels­ríkis.

Telja stjórn­mála­skýr­endur að heim­sókn Pompeos til Vestur­bakkans hafi verið eins konar kveðju­gjöf ríkis­stjórnar Trumps til banda­manns síns áður en for­setinn lætur af em­bætti.

Talið er að verðandi Banda­ríkja­for­seti, Joe Biden, muni snúa við þeirri á­kvörðun Trump að viður­kenna hinar her­numdu byggðir. Hann hefur þó lýst því yfir að hann muni ekki snúa við þeirri á­kvörðun frá­farandi for­seta að viður­kenna Jerúsalem sem höfuð­borg Ísraels­ríkis.