Ólafía Kvar­an er fyrsti Íslend­ing­ur­inn sem hrós­ar sigri á heims­meist­ara­móti í Spart­anhlaupum. Ólafía er heims­meist­ari í sín­um ald­urs­flokki en hlaupið fór fram í Squaw Valley í Lake Tahoe í Kali­forn­íu núna í haust. Spart­an Race er hindr­un­ar­hlaup þar sem kepp­end­ur tak­ast á við ým­iss kon­ar hindr­an­ir á hlaupaleiðinni, sem er ut­an­vega, og oft með tölu­verðri hækk­un. Íþrótt­in nýt­ur gíf­ur­legra vin­sælda í Banda­ríkj­un­um og kepp­end­um fer jafn­framt fjölg­andi í Evr­ópu og Asíu, en keppt er í grein­inni í um það bil 40 lönd­um í heim­in­um.

Byrjaði í Bootcamp 38 ára

„Ég hef alltaf verið aktíf og var í nokkrum íþróttum sem barn og unglingur, fótbolta, frjálsum, badminton og handbolta. Eftir það var ég í almennri líkamrækt þar til ég byrjaði í Bootcamp 38 ára gömul og hef æft það síðan.“ Auk þess hefur Ólafía hlaupið maraþon, Laugaveginn tekið þátt í Þrekmótaröðinni og fleiru og segir hreyfinguna vera hluta af sér.

Skráði sig óvön í hálfmaraþon

Ólafía starfar sem hjúkrunarfræðingur í Læknahúsinu og segist aðspurð starfið vissulega ýta sér ómeðvitað til þess að huga að heilsunni enda verði hún þar vör við mikið af lífsstílstengdum vandamálum. En þó Ólafía hafi alltaf stundað líkamsrækt var það ekki fyrr en um fertugt að hún fór að stunda hlaup. „Þá ákvað ég einn daginn að skrá mig í hálft maraþon. Ég hef svo verið að hlaupa í bland við Bootcamp síðan þá og það er mjög góð blanda tel ég, þar sem saman kemur styrkur og þol.“

30 burpees í refsingu

„Spartan hlaup er utanvega hindrunarhlaup þar sem margskonar hindranir eða þrautir eru á leiðinni sem keppandi þarf að gera eða klára til þess að geta haldið hlaupinu áfram. Ef þú nærð ekki að gera hindrun þá þarf að fara á refsisvæði sem er við hverja hindrun og gera 30 burpees undir eftirliti dómara og þá fyrst máttu halda áfram.
Það fer síðan eftir því hvar hlaupið er haldið hvernig brautin er. Mjög oft eru þau í fjalllendi t.d. á skíðasvæðum og þar af leiðandi er töluverð hækkun. Það fer því í raun allt eftir svæðinu hverju sinni hvernig hlaupið er, skóglendi, mýri, sandur, drulla, brekkur, fjöll, vötn, lækir og ár. Veður og árstíðir spila hér inn líka svo engin braut er því eins.“

Ein mest vaxandi íþrótt heims

Fyrsta Spartanhlaupið var haldið fyrir 10 árum síðan og að sögn Ólafíu er þetta ein mest vaxandi íþrótt heims í dag. „Spartan hlaup voru í 40 löndum í fyrra og samtals um 600 hlaup yfir árið. Tveir flokkar eru innan keppninnar Elítu flokkurinn sem er ætlaður atvinnumönnum og „Age group“ sem Ólafía keppti í og bar sigur úr býtum. „Ég er á því að flestir þeir sem stunda einhverskonar hreyfingu eða líkamsrækt geti farið í Spartan hlaup því það þurfa ekki allir að keppa í þessu heldur er meirihluti Spartan hlaupara þeir sem hlaupa í opnum flokki og fara þá hlaupið og hindranirnar á eigin forsendum og hraða.“

Spartan hlaup er utanvega hindrunarhlaup þar sem margskonar hindranir eða þrautir eru á leiðinni.

Að hreyfa sig er forréttindi

Ólafía segist oftast æfa fimm til sjö klukkustundir á viku. „Æfingavikan er misjöfn og breytileg eftir því hvað stendur til hjá mér keppnislega. Að geta stundað reglubunda krefjandi hreyfingu eru forréttindi og ég geri mér fulla grein fyrir því. Ég er bara þannig að ég vil vera í formi til að geta gert gert það sem lífið hefur upp á að bjóða hverju sinni. Það eru forréttindi að geta skellt sér á skíði, hjólað, skokkað eða gengið yfir holt og hæðir og upp á fjöll og fara út að moka snjó eða eitthvað þess háttar.“

Í Bootcamp er aldur bara tala

„Hreyfingin er líka rosalega mikilvæg fyrir mig félagslega, ég fæ mikið út úr því að hitta allt það skemmtilega fólk sem er í kringum mig og deilir sama áhuga og ég. Ég hef eignast mikið af góðum vinum á þessari leið á öllum aldri og skýringin á því að hversu lengi ég er búin að vera í Bootcamp er kannski sú að ég finn ekki fyrir aldursmuni þar. Þar er aldur bara tala. Eða það segi ég alla vega sjálfri mér,“ segir Ólafía í léttum tón og bætir við: „Yngra fólkið er kannski ekki sammála mér.“

Líkami okkar svo flottur og tæknilegur

Aðspurð hvernig tilfinning það sé að hrósa heimsmeistaratitli sem 49 ára gömul þriggja barna móðir segist Ólafia bæði stolt og ánægð og titillinn sé viðurkenning á því sem hún hafi lagt í ferlið. „Það er gaman að verða heimsmeistari 49 ára gömul í toppformi. Þessi líkami okkar er svo flottur og tæknilegur. Það er hægt að drösla honum með sér í gegnum alls konar æfingar og ævintýri og hann styrkist og bætir sig endalaust eða alla vega mjög lengi ef það er hugsað vel um hann, honum gefið hollt að borða og látinn hvíla sig og sofa og þess háttar.“

Ætlar að verja titilinn

Það eitt að komast inn á heimsmeistaramótið er afrek í sjálfu sér enda krefjandi ferli þar sem einungis 100 manns komast að í hverjum aldursflokki. „Þannig að þarna eru þeir bestu í heiminum í hverjum aldursflokki. Það vakti athygli að ég væri íslensk og að það væru engin Spartan hlaup í gangi á Íslandi og ég væri þrátt fyrir það búin að ná þessu árangri.“ Það er ekki úr vegi að spyrja þessa kjarnakonu út í framtíðarmarkmiðin: „Þau eru að vera áfram hraust og heilbrigð til þess að geta notið alls þess lífið býður upp á. En ég stefni að sjálfsögðu á að verja heimsmeistartitilinn árið 2020.“