Kötturinn Baktus er löngu orðinn að einu helsta kenni­leiti mið­bæjarins enda hefur fólk víðs vegar að úr heiminum heillast af fram­komu hans, en hann er í senn sjálfs­öruggur og al­úð­legur. Þótt hinn tíu ára gamli högni státi nú af um 10.600 fylgj­endum á Insta­gram hefur frægðin ekki stigið honum til höfuðs heldur lætur hann gott af sér leiða í góð­gerðar­málum.

Baktus er afar vin­sæll og er með rúm­lega tíu þúsund fylgj­endur á Insta­gram.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Baktus er ekki með neinn söfnunar­reikning sem slíkan, því það má ekki,“ segir Haf­dís Þor­leifs­dóttir, eig­andi Baktusar og fata­verslunarinnar Gyllta kattarins. „Hann er bara venju­legur tíu ára köttur sem hefur þó gefið mikið af sér, bæði and­lega og peninga­lega.“

Haf­dís segir að sumir að­dá­endur Baktusar krefjist stundum að fá að gefa honum pening þegar þeir leggja leið sína í gegnum bæki­stöðvar hans í Gyllta kettinum. „Það var einn eldri maður sem gaf honum 110 þúsund krónur fyrir einu og hálfu ári síðan,“ segir hún. „Mér fannst þetta skrítið þar sem hann þarf ekki á þessum pening að halda en setti peninginn þó til hliðar.“

Eig­andi Baktusar segir hann bara venju­legan tíu ára kött.
Fréttablaðið/Anton Brink

Eig­endur Baktusar eru hluti af sam­tökunum Villi­köttum þar sem leitast er við að að­stoða bág­staddar kisur. Þegar söfnun fór af stað til að fjár­magna kostnaðar­sama að­gerð hjá einum kattanna dugðu peningarnir sem Baktus hafði fengið ein­mitt fyrir að­gerðinni. „Við borguðum þá að­gerð enda þarf Baktus ekki á peningunum að halda,“ segir Haf­dís. „Hann er nægju­samur og fær nóg að borða heima hjá sér.“

Baktus er nægju­samur köttur.
Fréttablaðið/Anton Brink

Þótt Haf­dísi þyki ó­þægi­legt að taka við fram­lögum til Baktusar þá þiggur hún þau þó og leggur til hliðar fyrir dýr sem lenda í svipuðu klandri. „Dýr þurfa oft á hjálp að halda og þá getur verið gott að nýta peninginn til að að­stoða fólk sem hefur ekki efni á dýra­lækningum,“ segir hún. „Við Baktus borguðum fyrir hund um daginn þegar pabbi hans átti ekki alveg fyrir að­gerðinni.“

Baktus gefur af sér, bæði and­lega og peninga­lega.
Fréttablaðið/Anton Brink

Þá bendir Haf­dís á hve mikið Baktus gefi af sér and­lega. „Það kom maður í búðina um daginn sem hafði komið á­samt eigin­konu sinni til landsins fyrir þremur árum og hitt Baktus,“ segir Haf­dís.

„Eigin­kona hans komst ekki með í þetta skipti vegna heilsu­brests en hennar heitasta ósk var að fá að tala við Baktus í gegnum Mess­en­ger, sem kom ein­mitt inn á sama tíma. Úr varð al­gjört tára­flóð og konan sagði að þetta væri besti dagur lífs síns.“

Baktus skilur mikið eftir hjá þeim sem eru svo lán­söm að verða á vegi hans.
Fréttablaðið/Anton Brink