CO­VID-19 heims­far­aldrinum hefði getað verið af­stýrt en „slæm á­kvarðana­taka, tregða til að takast á við ó­jöfnuð og ó­sam­stillt kerfi sköpuðu ban­vænan kok­teil sem leyfði far­aldrinum að um­breytast í mann­legan harm­leik.“ Þetta kemur fram í skýrslu In­dependent Panel for Pandemic Prepar­ed­ness and Respon­se (IPPPR), sjálf­stæðri nefnd sér­fræðinga sem skipuð var af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO til að greina við­brögð al­þjóða­sam­fé­lagsins við heims­far­aldrinum. AFP fréttaveitan greinir frá.

Sam­kvæmt skýrslunni var það einna helst röð slæmra á­kvarðana sem leiddi til þess að CO­VID-19 lagðist yfir heims­byggðina með þeim af­leiðingum að rúm­lega 3,3 milljónir manns hafa látist og lönd heimsins standa nú frammi fyrir einni verstu efna­hags­kreppu síðari ári.

Fyrstu við­brögð við upp­tökum far­aldursins í Wu­han í desember 2019 voru ekki nógu hröð og jafn­vel eftir að Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunin varaði þjóðir heims við mögu­legum heims­far­aldri brugðust flest lönd ekki nógu hratt við sem olli því að febrúar 2020 varð að sögn „glataður mánuður“ í baráttunni við veiruna. Al­þjóð­legar stofnanir brugðust og sumir þjóðar­leið­togar grófu undan trausti fólks á sótt­varnar­að­gerðum með því að af­neita vísindum.

„Það hefði verið hægt að koma í veg fyrir það á­stand sem við lifum við í dag. Or­sökin er ara­grúi af mis­tökum, gloppum og töfum hvað varðar undir­búning og við­brögð,“ segir Ellen John­son Sir­leaf, fyrrum for­seti Líberíu, sem leiddi nefndina á­samt Helen Clark, fyrrum for­sætis­ráð­herra Nýja Sjá­lands.

Nefndin hvetur þjóðir heims til að setja af stað tafar­lausar að­gerðir til að ráða niður­lögum far­aldursins. Á meðal þess sem hún kallar eftir er að ríkustu lönd heims gefi einn milljarð skammta af bólu­efni til fá­tækari landa í gegnum CO­VAX sam­starfið, eigi síður en 1. septem­ber 2021 og rúma tvö milljarða skammta fyrir mitt ár 2022.

Nefndin kallar auk þess eftir því að bólu­efna­fram­leið­endur felli niður einka­leyfi á bólu­efnum og hvetur ríkustu þjóðir heims til að fjár­magna nýjar stofnanir til að vinna að undir­búningi fyrir næsta smit­far­aldur. Þá hvetur nefndin G20 ríkin til að setja á fót al­þjóð­lega stofnun til að fjár­magna slíkan undir­búning en sú stofnun ætti að geta ráð­stafað 50-100 milljörðum Banda­ríkja­dala í efna­hags­að­gerðir.

„Að fjár­festa milljörðum í undir­búning núna, mun á endanum spara trilljónir í fram­tíðinni, eins og nú­verandi heims­far­aldur hefur ber­sýni­lega sýnt fram á,“ segir Helen Clark, annar formanna nefndarinnar.