Heimkomusmitgát tekur gildi frá og með mánudeginum 13. júlí á morgun. Það þýðir að íslenskir ríkisborgarar og aðrir búsettir á Íslandi fari í fimm daga heimkomusmitgát þar til niðurstöður úr seinni sýnatöku liggja fyrir.

Hverjir fara í heimkomusmitgát?

Öllum íslenskum ríkisborgurum og öðrum búsettum hér á landi er skylt að fara annað hvort í 14 daga sóttkví við komu til landsins eða sýnatöku.

Þeir sem velja sýnatöku við landamærin og fá neikvæðar niðurstöður verður gert að fara í þessa heimkomusmitgát.

Þetta er til að minnka líkurnar á að röng niðurstaða á prófi á geti leitt til frekari hópsmita á Íslandi.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir í minnisblaði til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra að reynslan af skimun á landamærum hafi leitt í ljós að nýlega smitaðir einstaklingar greinist ekki í skimuninni og að þeir geti síðar smitað frá sér.

Með fimm daga heimkomusmitgát sé hægt að draga úr þessari hættu.

Hvað má og hvað ekki í heimkomusmitgát?

-Ekki fara á mannamót eða veislur þar sem fleiri en tíu manns eru saman komnir.

-Ekki vera í samneyti við fólk sem er í aukinni áhættu fyrir alvarleg veikindi/viðkvæmir hópar.

-Gæta að tveggja metra reglunni í samskiptum við aðra.

-Heilsa ekki með handabandi og forðast faðmlög.

-Huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum.

-Má nota almenningssamgöngur til að komast á áfangastað.

-Má fara í bíltúra.

-Má fara í búðarferðir.

-Leyft að hitta vini og kunningja með ofangreindum takmörkunum.

Íslenskir ríkisborgarar og aðrir búsettir hér, sem fá neikvæða niðurstöðu við landamæraskimun, þurfa að fara í fimm daga heimkomusmitgát.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari