Samkvæmt nýrri könnun Veritabus er matarkarfa vefverslana ódýrust í Krónunni en dýrust í Heimkaup. Einnig var varð kannað hjá Hagkaupum og Nettó.Bónus er ekki með vefverslun og því ekki með í könnuninni en í almennum verðkönnunum mælist verðlag jafnan lægst í Bónus.

Verð á 108 vörum var kannað, auk þess sem gerð var körfukönnun með 66 ólíkum vörum. Einnig var skoðað hvaða breyting hefur orðið innbyrðis milli verslana frá september 2021.

Frá verðkönnun ASÍ í október hefur minnst hækkun orðið í Hagkaupum, 0,22 prósent, því næst í Krónunni, 1,1 prósent, Nettó hafði hækkað um 2,81 prósent og Heimkaup um 4,09 prósent. Vegið meðaltal hækkunar er 1,44 prósent.

Jafnframt var gerð körfukönnun með 66 ólíkum vörum og Krónan er með ódýrustu körfuna. Munar ríflega 25 prósentum á verði Krónunnar og Heimkaupa, en dýrasta karfan var í Heimkaupum.

Ef skoðuð er þróun á innbyrðisstöðu frá því í september 2021 sést að hlutfallslegt verð, miðað við meðaltal markaðar, hefur lækkað í Nettó, Krónunni og Hagkaupum en hækkað verulega í Heimkaupum. Í september 2021 var verðlag Heimkaupa eilítið lægra en í Hagkaupum. Nú er verðlag í Heimkaupum hins vegar 11 prósentum hærra.

Fram kemur að í ágúst síðastliðnum, eftir að verð í Krónunni hækkaði talsvert milli mánaða, var Nettó ódýrasta verslunin í mælingunni. Þá munaði líka mjög litlu á verði í Nettó, Krónunni og Hagkaupum. Krónan hefur síðan endurheimt sæti sitt sem ódýrasta vefverslunin.

Á morgun birtir Hagstofan vísitölu neysluverðs fyrir desember. Greiningardeildir bæði Íslandsbanka og Landsbankans búast við bakslagi í hjöðnun verðbólgu nú og að ársverðbólgan mælist 9,6 prósent og hækki milli mánaða.

Veritabus reiknar með að Hagstofan mæli minni verðhækkanir en greiningardeildir búast við og að árshækkun vísitölunnar muni mælast 9,6 prósent. Samkvæmt mælingum Veritabus ætti vísitalan að hækka um 0,21 prósent milli mánaða, sem jafngildir 9,1 prósents árshækkun. Greinendur Veritabus telja engu að síður að Hagstofan muni mæla 9,3-9,4 prósenta verðbólgu. Ástæða þessa sé meðal annars mismunandi tímasetningar verðmælinga innan mánaðar.

Í gær birtist samræmd vísitala neysluverðs og samkvæmt henni er þriðja minnsta verðbólga í Evrópu hér á landi. Einungis í Sviss og á Spáni er verðbólgan lægri. Árshækkun samræmdu vísitölunnar mældist 7 prósent á Íslandi.