Heimir Már Péturs­son, frétta­maður og einn stofnandi Hin­segin daga, segir að það hafi komið sér á ó­vart að sjá í Frétta­blaðinu fyrir helgi að Hörður Torfa­son, stofnandi Sam­takanna ´78, hafi verið hundsaður af Hin­segin dögum. Hörður sagði í viðtali að það hefði verið áberandi í gegnum árin að hann hefði ekki verið með, utan eins skiptis árið 2003.

„Ég var aðal­hvata­maður að stofnun Hin­segin daga haustið 1999, sem eru sjálf­stæð sam­tök en ekki deild í Sam­tökunum '78. Samtökin héldu síðan sínu fyrstu Hin­segin daga í Reykja­vík , Gay Pride há­tíð, árið 2000 og var ég fram­kvæmda­stjóri há­tíðarinnar fyrstu ellefu árin,“ segir Heimir Már í bréfi til Frétta­blaðsins.

Amerískt fyrirbæri

Hann segir að hið rétta sé að Hörður hafi ekki farið leynt með þá skoðun fyrstu ár há­tíðarinnar að honum þætti „skrýtið að vera að éta upp eitt­hvert amerískt fyrir­bæri“ og að frekar ætti að ein­blína á bar­áttu­sögu homma og lesbía. Að hans mati væri há­tíðin því ekki merki­leg.

„Við sem stofnuðum Hin­segin daga í Reykja­vík - Gay Pride, litum hins vegar alltaf þannig á að við hér á Ís­landi til­heyrðum al­þjóð­legri hreyfingu sem skilað hefði bar­áttu okkar og réttindum á­fram með gleðina að vopni. Þess vegna kölluðum við göngu okkar Gleði­gönguna en ekki Fýlu­gönguna, Kröfu­gönguna eða Mót­mæla­gönguna. Gleðin og sýni­leikinn eru nefni­lega pólitík líka og beitt vopn gegn for­dómum og of­sóknum,“ segir Heimir Már.

Óskuðu stolt eftir þátttöku Harðar 2003

Hann segir að þrátt fyrir nei­kvætt og opin­bert við­horf Harðar hafi þau óskað eftir þátt­töku hans árið 2003 og það hafi þau gert með stolti. Hann hafi bæði fengið pláss á aðal­sviði það árið og í dag­skrár­riti há­tíðarinnar það árið.

„Al­menna regla Hin­segin daga var öll þau ár sem ég stjórnaði þeim að lista­menn sóttu um að koma fram á há­tíðinni þótt við óskuðum einnig eftir þátt­töku ein­stakra lista­manna. Hver lista­maður kom hins vegar að­eins einu sinni fram á stóra sviðinu okkar, með ör­fáum undan­tekningum þar sem um var að ræða mikið stuðnings­fólk Hin­segin daga,“ segir Heimir Már og að hann muni ekki eftir því að Hörður hafi nokkurn tíma, eftir árið 2003, óskað eftir því að vera með á há­tíðinni en hefði hann gert það hefði honum verið vel­komið að vera með.

„Honum hefði verið vel­komið eins og öllum öðrum að setja upp tón­leika í tengslum við há­tíðina og óska eftir því að þeir væru hluti af henni en það gerði hann aldrei.“

Heimir Már, fyrir miðju, á blaðamannafundi fyrir Hinsegin daga árið 2008.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fórnar­lambs­hlut­verkið

Heimir Már segir að Hörður megi ekki gleyma sér í fórnar­lambs­hlut­verki og segir að Hin­segin dagar hafi gagn­gert verið stofnaðir gegn þeirri staðal­í­mynd.

„Við vildum og vorum stolt af sigrum okkar fólks um allan heim í gegnum árin. Fögnuðum þeim með gleði og sýni­leika um leið og við minntumst þeirra sem féllu í bar­áttunni og lýstum stuðningi við bræður okkar og systur í öðrum löndum sem voru of­sótt, fangelsuð og pyntuð. Hörður stóð uppi tein­réttur eftir sína bar­áttu sem Hin­segin dagar í Reykja­vík - Gay Pride hafa marg­sinnis þakkað honum fyrir. Hann á því að vera stoltur en ekki súrt fórnar­lamb,“ segir hann að lokum.