Ekki hefur verið tekin ákvörðun um að hækka almannavarnastig þótt fjöldi þeirra sem greinst hafa með Covid-19 hafi aukist mikið undanfarna daga. Þetta sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri á upplýsingafundi í dag.

Fram kom í máli Sigríðar að heimilisofbeldi hafi verið að aukast í faraldrinum. Góðu fréttirnar væru þó að fólk væri að tilkynna um slík brot.

Hávaðatilkynningum hafi fækkað að undanförnu og þakkaði Sigríður Björk stjórnendum veitingastaða fyrir gott samstarf og velferðarþjónustunni fyrir sitt starf.

Sigríður sagði lögreglu hafa virkt eftirlit með því að sóttvarnarreglum sé fylgt, bæði á veitingahúsum og með ferðamönnum sem koma til landsins og eiga að vera í sóttkví.

Um hagi Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns sagði Sigríður Björk hann einkennalausan en hann var í viðtali á Rás 2 í gær en starfsmaður stöðvarinnar hefur verið greindur með Covid-19. Sigríður Björk sagði að öllum sóttvarnarreglum hafi verið fylgt í samskiptum Víðis og þáttastjórnenda.