„Fyrirmæli frá yfirvöldum þar sem lögð er áhersla á að halda sig heima, einangra sig og huga vel að hreinlæti eru fyrirmæli sem ná illa til okkar markhóps, sem eru heimilislausir og einstaklingar með vímuefnavanda,“ segir Elísabet Brynjarsdóttir, starfandi hjúkrunarfræðingur hjá Frú Ragnheiði.

Frú Ragnheiður er sjálfboðaverkefni sem býður fólki sem notar vímuefni í æð upp á skaðaminnkandi þjónustu, svo sem nýjar nálar. Elísabet segir áherslur Frú Ragnheiðar hafa breyst vegna COVID-19 faraldursins og að lögð sé áhersla á að koma upplýsingum um sjúkdóminn til þess hóps sem þangað leitar.

„Almennt þá hefur þessi hópur öðruvísi heilsulæsi og það er nauðsynlegt að tala þeirra tungumál þegar verið er að miðla upplýsingum,“ segir Elísabet. Allir sem leiti til Frú Ragnheiðar fái afhent bréf með upplýsingum tengdum COVID-19.

„Við förum yfir innihald bréfsins munnlega með okkar skjólstæðingum og þar eru upplýsingar um stöðuna, smitleiðir og einkenni COVID-19, “ segir Elísabet. „Svo skimum við alla eftir einkennum og ef það er grunur um smit þá bjóðum við viðkomandi stuðning og hjálp við að komast í tengingu við heilbrigðiskerfið.“ Smit hefur ekki fundist.

Þá segir Elísabet þann hóp sem nýtir sér starfsemina hafa skertan aðgang að heilbrigðiskerfinu. „Ástæðurnar geta verið margar, bæði fordómar, opnunartími og samgöngur svo eitthvað sé nefnt.“

Ragnheiður Hulda Friðriksdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri meðferðarátaks heilbrigðisyfirvalda gegn lifrarbólgu C, tekur undir orð Elísabetar. „Okkar skjóstæðingahópur, sjúklingar með lifrabólgu C, eru oft þeir sem eru illa settir í samfélaginu, heimilislausir eða í vímuefnaneyslu svo þeir eru kannski viðkvæmari fyrir smiti og afleiðingum þess að smitast af COVID-19,“ segir hún.

RHF.jpg

Ragheiður Hulda Friðríksdóttir, verkefnastjóri og hjúkrunarfræðingur.

Þessi hópur leitar síður á sjúkrahús og á erfiðara með að einangra sig,“ bætir Ragnheiður við.

Frá 2016 hefur staðið yfir átak um að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi, Ragnheiður segir að náðst hafi til yfir 90 prósent þeirra sem smitast hafa að sjúkdómnum. „Við erum núna fyrst og fremst að vinna í þessum áhættuhópi, sem er fólk í mjög virkri neyslu,“ segir hún. Erfitt geti verið að ná til þessa hóps.

„Við ákváðum núna í þessum aðstæðum í samfélaginu að reyna að ná til þessa hóps. Nú eru aðstæður þannig að þessi hópur er lengur inni í gistiskýlunum og við munum bjóða þeim upp á skimun fyrir lifrabólgu C og meðferð í kjölfarið ef smit finnst,“ segir hún en líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær hafa gisti og neyðarskýli borgarinnar þurft að breyta starfsháttum sínum. Í gistiskýlinu á Lindagötu dvelur nú minni hópur sem er í áhættuhópi vegna COVID-19.

,,Það er ekkert nýtt fyrir okkur að bjóða upp á skimanir fyrir lifrabólgu C en nú höfum við tækifæri á að ná til hóps sem okkur hefur reynst erfitt að ná til. Við stöndum frammi fyrir því að vímuefnaneysla í æð virðist vera að aukast samkvæmt tölum frá Vogi og þar með erum við að sjá talsvert af endursmiti sem og á nýjum smitum. Tilgangurinn með skimuninni er því sá að finna þessi smit og veita meðferð,“ segir Ragnheiður.