„Við erum bara að kalla eftir hjálp, það er það sem þetta snýst um,“ segir Ragnar Erling Hermannsson, meðlimur í Viðmóti, samtökum um mannúðlega vímuefnastefnu á Íslandi.

Samtökin héldu í gær setuverkfall í neyðarskýlinu á Granda sem er úrræði fyrir heimilislausa karlmenn á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Þar er opið frá klukkan fimm seinnipartinn og til tíu á morgnana alla daga.


Félagar í Viðmóti krefjast þess að Reykjavíkurborg taki ábyrgð á því að það sé ekki starfrækt dagsetur fyrir heimilislausa karlmenn á daginn og komi slíku á laggirnar strax, annað hvort sjálf eða í samstarfi við aðra. Þá fara samtökin fram á það að öllum neyðarskýlum í Reykjavík sé ekki lokað yfir daginn sé veðurviðvörun gul eða hærri. Nú er miðað við að loka ekki ef viðvörun vegna veðurs er appelsínugul eða rauð.

Ragnar Erling Hermannsson er í samtökunum Viðmót.

Vantar fjármagn

Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir, deildarstýra í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, segir kröfur Viðmóts skiljanlegar. Eins og svo oft áður sé fjármagn vandamálið.

„Þetta snýst um peninga, því miður,“ segir Hrafnhildur. „Það er nú þegar ekki til fjármagn fyrir því að hafa opið þegar það er appelsínugul eða rauð viðvörun en við gerum það samt. Það þarf að manna vaktina og það kostar peninga,“ bætir hún við. Hrafnhildur bendir á að dagsetur fyrir konur sé rekið af Hjálparstarfi kirkjunnar.

Ragnar og Atli Sæmundsson, voru meðal þeirra sem tóku þátt í setuverkfallinu í gær. Þeir segjast báðir bjartsýnir á að hlustað verði á kröfur þeirra, annað væri ómannúðlegt.

„Við vitum alveg að það vill enginn að við séum úti í kuldanum en við spyrjum okkur samt af hverju það er ekkert gert, hverjir eru það eiginlega sem taka þessar ákvarðanir?“ segir Ragnar.

Hrafnhildur segir mikinn vilja hjá velferðasviði og borginni til að bregðast við og það sé verið að meta stöðuna. Ákvarðanir byggi á stefnu og stefnan sé að leggja áherslu á framboð á húsnæði frekar en aukningu hjá neyðarskýlum. Ekki náðist í Heiðu Björg Hilmisdóttur, formann velferðarráðs, við gerð umfjöllunarinnar.

Kvíða komandi vetri

Í Reykjavík eru þrjú neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk. Þau eru öll opin alla daga frá klukkan 17 til 10 næsta dag. Boðið er upp á kvöldverð og morgunmat auk stuðnings og þjónustu frá VoR-teymi og starfsfólki neyðarskýlanna. Ákveðinn fjöldi gistiplássa er í hverju neyðarskýli en engum er vísað frá.

„Þetta er erfitt fyrir okkur en það er líka erfitt fyrir starfsfólkið og þau sem vilja hjálpa okkur að geta og/eða mega það ekki,“ segir Ragnar. „Þetta eru allt algjörar perlur og reyna allt sem þau geta en þurfa að vinna eftir ómannúðlegum reglum sem fólkið á bak við tjöldin setur,“ bætir hann við.

Atli og Ragnar kvíða komandi vetri og kuldanum sem búast má við. Þeir segjast ekki hafa í nein hús að venda. Spurðir hvar þeir hafi hafst við síðastliðinn þriðjudag þegar mikil rigning var í Reykjavík segjast þeir hafa leitað skjóls í bílakjallara.

„Það er eini staðurinn sem við þannig séð fáum að vera á og fáum frið, en samt erum við líka reknir þaðan út ef einhver kemur,“ segir Atli.

Mennirnir fóru ekki úr skýlinu þegar það lokaði í gær í mótmælaskyni.
Fréttablaðið/Birna Dröfn

Ragnar og Atli neyta báðir vímuefna og segjast finna fyrir miklum fordómum í sinn garð. „Því miður er mikið stigma í samfélaginu varðandi það. Það er ekki litið á þetta sem veikindi og við erum ekki velkomnir á mörgum stöðum,“ segir Ragnar.

Kvíðið þið vetrinum?

„Já, ég er mjög kvíðinn og stressaður,“ segir Ragnar. „Við getum fengið hlý föt og svona í skýlinu en sama hvað maður er vel klæddur þá er manni samt kalt ef maður er úti allan daginn,“ segir hann.

„Ég myndi frekar vilja deyja en að lifa þennan vetur. Ekki bara af því ég er heimilislaus heldur út af neyslunni og mörgu öðru,“ segir Atli.

Finnst þér þú ekki fá hjálpina sem þú þarft?

Nei, eiginlega ekki, ég veit ekki hvað ég er búinn að bíða í mörg ár eftir íbúð en það er alltaf einhver á undan mér,“ segir Atli.

Einstaklingsmiðuð úrræði


Atli og Ragnar eru sammála um að nauðsynlegt sé að þau úrræði sem í boði eru séu einstaklingsmiðuð. Ekki geti allir búið einir í íbúð og sumir séu til að mynda veikir og þurfi á læknisaðstoð að halda.

Undir orð þeirra tekur Ásbjörg Una Björnsdóttir, forstöðukona Gistiskýlisins á Granda. Hún segir grunnvandamálið það að einstaklingar þurfi að vera til langtíma í neyðarskýlum. Samkvæmt tölfræði Reykjavíkurborgar frá október 2021 eru 214 karlmenn og 87 konur heimilislaus í Reykjavík og um 30 prósent þeirra eru í neyðarskýlum. Þar er ekki ætlast til að fólk sé lengur en í þrjátíu daga.

„Það þarf að horfa á þarfir hvers og eins og mæta þeim,“ segir Ásbjörg. „Það á enginn að þurfa að búa hér til lengri tíma og það á enginn að þurfa að upplifa það að hafa í engin hús að venda.“

Ásbjörg segir að í neyðarskýlinu á Granda séu fimmtán rúm en að vanalega sofi þar átján manns. „Við erum með þrjá sófa þar sem þrír geta fengið að hvíla sig. Ef það koma fleiri þá erum við í sambandi við gistiskýlið á Lindargötu og í algjörum neyðartilvikum hringjum við í lögregluna og menn fá að sofa í fangageymslu,“ segir hún.

Í gistiskýlinu á Lindargötu eru 25 gistipláss sem Ingi Þór Eyjólfsson, forstöðumaður þar, segir fullnýtt á hverri nóttu. Hann segir að meðaltali um fimmtíu manns dvelja í neyðarskýlum í Reykjavík á hverri nóttu, á Lindargötu, Granda og í Konukoti.

Ég myndi frekar vilja deyja en að lifa þennan vetur. Ekki bara af því ég er heimilislaus heldur út af neyslunni og mörgu öðru

Vantar Skjól fyrir karla


Í febrúar á síðasta ári var Skjólið opnað á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar að frumkvæði biskups Íslands. Þangað geta heimilislausar konur leitað yfir daginn og þar er boðið upp á hádegismat, hreinlætis- og þvottaaðstöðu ásamt því að aðstaða er til hvíldar og tómstundaiðkunar. Þar geta konurnar einnig komist í tölvu.

„Þetta er akkúrat það sem við erum að tala um að okkur vanti og okkur er það óskiljanlegt að við getum ekki fengið líka,“ segir Ragnar.

Rósa Björg Brynjarsdóttir, umsjónarkona Skjólsins, segir að gengið hafi virkilega vel frá því Skjólið var opnað. Þangað hafi leitað 94 konur frá opnun, þar af 59 á þessu ári. „Að meðaltali hafa komið um átta til ellefu konur til okkar á dag núna í október,“ segir hún.

„Við höfum bara fengið góð viðbrögð frá konunum okkar og fagaðilum. Þeir tala um að auðveldara sé að nálgast konurnar og hér er opið á skrifstofutíma sem er einmitt tíminn þegar maður sækir um vinnu, hittir ráðgjafa og svo framvegis,“ segir Sara.

Hún segir að þegar Skjólið hafi verið opnað hafi verið framkvæmd þarfagreining þar sem í ljós kom að þörfin var mest fyrir að opna úrræði fyrir konur sem opið væri að deginum til. „Það er samt klárt mál að það þarf líka svona úrræði fyrir karlana.“

Ragnar og Atli segjast þakklátir fyrir þá þjónustu sem þeir fái í neyðarskýlinu en að dagarnir séu erfiðir. „Við erum í þeirri stöðu að við erum bara að drepa tímann og það er erfitt að gera það þegar maður er alltaf í lausu lofti,“ segir Atli.

„Það er erfitt að geta ekki fest rætur neins staðar,“ segir Ragnar. „Ég er fullfær um að vinna og er alveg til í að vakna á morgnana og fá mér kaffibollann minn, gera mig til og fara í vinnu en ég bara hef enga fótfestu og þá get ég það ekki,“ bætir hann við.

„Við munum ekki gefast upp,“ segir Ragnar. „Ég hef fulla trú á því að það verði gengist við okkar kröfum, sérstaklega ef við höldum áfram að berjast fyrir þeim, annað hvort það eða við sitjum bara hér og förum ekkert út.“