Heimilislausir karlmenn eru eins og stendur í setuverkfalli í neyðarskýlinu á Grandagarði 1a sem er úrræði fyrir heimilislausa karlmenn og er rekið af velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Mótmælin eru skipulögð af samtökunum Viðmót sem eru ný hagsmunasamtök um réttindi vímuefnanotenda á Íslandi og í tilkynningu frá samtökunum kemur fram að meðlimir hafi ákveðið í mótmælaskyni að yfirgefa ekki neyðarskýlið á Granda klukkan tíu í morgun þegar úrræðið átti að loka yfir daginn.

Í tilkynningu kemur fram að mótmælin eru tvíþætt. Annars vegar vilja mennirnir að Reykjavíkurborg taki ábyrgð á því að ekkert úrræði er opið allan daginn fyrir heimilislausa karlmenn og að þau neyðarskýli sem eru til staðar loki ekki þegar spáð er gulri viðvörun eða hærra.

Mennirnir neituðu að fara úr gistiskýlinu í morgun.
Fréttablaðið/Birna Dröfn

Vilja sambærilegt dagsetur og Skjólið

Samkvæmt ársgamalli talningu Reykjavíkurborgar á heimilislausum telja heimilislausar konur 87 í Reykjavík og karlmenn 214. Í tilkynningunni segir að 30 prósent þessara einstaklinga sé í neyðarskýlum en aðsókn hefur aukist mikið á þessu ári og oft verið yfirfullt og erfitt.

„Þar sem að neyðskýlin eru lokuð á daginn þá þurfa þeir sem reiða sig á neyðarskýlin að brúa af bilið á hverjum degi frá kl 10:00 til 17:00, í allskonar veðri og heilsufarsástandi,“ segir í yfirlýsingunni þar sem bent er á að fyrir konur eru rekin ýmis úrræði eins og til dæmis Skjólið sem er rekið af Hjálparstarfi kirkjunnar.

Mennirnir fara fram á að sett verði upp sambærilegt dagsetur fyrir þá.

„Þetta gengur ekki lengur, okkur vantar öruggan stað þar sem við getum haft aðsetur yfir daginn. Það er að koma vetur og það er ekki í lagi að þegar að veðrið er svo slæmt að skólar á höfuðborgarsvæðinu skikka forsjáraðila til að sækja börnin sín að þá séu öll neyðarskýlin lokuð og að heimilislausir karlmenn hafi ekkert aðsetur yfir daginn,“ segja mennirnir og að um sé að ræða mannréttindamál sem snúist bæði um þeirra öryggi og heilsufar.

„Við verðum að hafa samastað yfir daginn, þar sem er þurrt og hlýtt ásamt því að hafa aðgang að salernis- og hreinlætisaðstöðu. Við viljum að þetta vandamál verði leyst sem fyrst og getum ekki sætt okkur við enn einn veturinn í viðbót af óbreyttu ástandi,“ segir að lokum.