Færsla á íbúasíðu Hafnarfjarðarbæjar á Facebook vakti mikla athygli í gær en þar hafði einn íbúi birt mynd af dvalarstað heimilislauss manns. Á annað hundrað manns hafa nú skrifað ummæli við umrædda færslu, sem birtist á sunnudagskvöldinu, auk þess sem margir hafa deilt henni þar sem upphafsaðilinn hafði spurt hvað væri hægt að gera fyrir manninn.

Flestir sem settu inn ummæli við færsluna lýstu yfir vilja til að hjálpa manninum og veltu margir fyrir sér hvort að honum hafi verið boðin aðstoð. Facebook síða Hafnarfjarðarbæjar svaraði færslunni síðan í gær og var þar greint frá því að félagsþjónusta Hafnafjarðarbæjar og lögregla hafi ítrekað haft afskipti af manninum sem um ræðir.

Þrátt fyrir að flestir hafi tekið vel í ummæli bæjarins var einnig bent á að það hjálpi manninum ekki að bærinn greini frá afskiptum lögreglu og félagsþjónustu á manninum á samfélagsmiðlum.

Hafnafjarðarbær skrifaði ummæli við færsluna þar sem mynd af dvalarstað mannsins var birt.
Skjáskot/Facebook

Friðhelgi einkalífsins oft ekki virt hjá heimilislausum

Elísabet Herdísar Brynjarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastýra hjá Frú Ragnheiði, skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins, segir mikilvægt að mannréttindi heimilislausra einstaklinga séu virt en flestir skjólstæðingar Frú Ragnheiðar eru heimilislausir. Hún segist oft hafa rekist á það að réttindi heimilislausra sé ekki virt til jafns við þá sem eru ekki heimilislausir.

Mikið sé rætt um friðhelgi heimilisins en minna um friðhelgi einkalífsins, og þá sérstaklega þegar kemur að heimilislausum. „Við verðum auðvitað alltaf bara að muna, þó að margir geti ekki sett sig í þessi spor að eiga ekki heimili, að þetta er manneskja sem við sjáum,“ segir Elísabet en hún segir mikilvægt að persónulegum upplýsingum um einstaklinga, til að mynda afskipti lögreglu, sé ekki deilt án leyfis.

„Almennt þá eiga heimilislausir einstaklingar og aðrir jaðarsettir hópar að njóta sömu persónuverndar og aðrir,“ segir Elísabet enn fremur en hún segir að það sé þekkt vandamál innan heilbrigðiskerfisins að þeim mun berskjaldaðri sem einstaklingur er, þeim mun líklegra er að upplýsingum um þann einstakling sé deilt án samráðs.

Elísabet Herdísar Brynjarsdóttir, verkefnastýra Frú Ragnheiðar.

Bærinn standi ekki á hliðarlínunni

Að sögn Árdísar Ármannsdóttur, samskiptastjóra Hafnarfjarðarbæjar, voru ummælin sett við færsluna til að láta íbúa vita að það væri búið að ræða við manninn og að bærinn hafi látið sig málið varða. Hún segir bæinn ekki greina frá neinum persónulegum upplýsingum í ummælunum og að upprunalega færslan hafi ekki komið frá þeim.

„Við í raun nefnum ekkert annað heldur en að mál umrædds aðila sé í vinnslu, án þess að nefna nokkuð frekar. Við nafngreinum engan og setjum engar myndir þannig það er ekkert persónugreinanlegt í okkar færslu,“ segir Árdís í samtali við Fréttablaðið. Af ummælum íbúa að dæma má þó gera ráð fyrir að fólk viti af umræddum manni, hvernig hann lítur út, og hvar hann dvelur.

Aðspurð um hvort hún telji það vera á gráu svæði að hafa greint frá því að lögregla hafi haft afskipti af manninum segir hún að það hafi áður komið fram í ummælum annarra við færsluna. Ummæli bæjarins hafi aðeins verið ætluð til að fullvissa íbúa um að mál aðilans sé til skoðunar og að bærinn standi ekki aðeins á hliðarlínunni.

Aldrei meira sagt en þarf

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir í samtali við Fréttablaðið að Persónuvernd geti ekki tjáð sig um einstök mál en að almennt séð gildi persónuverndarlög þegar persónuupplýsingar eru unnar en persónuupplýsingar eru allar þær upplýsingar sem hægt er að nota til að persónugreina einstakling.

Hún segir nauðsynlegt að heimild sé til staðar hjá ábyrgðaraðila til að vinna persónuupplýsingar um einstaklinga. „Þá þarf einnig að meta í hvert sinn hvaða upplýsingum er nauðsynlegt að koma á framfæri,“ segir Helga og bætir við að það sé mikilvægt að huga að meðalhófi, þannig að aldrei sé meira sagt en þarf í hvert sinn til að koma ákveðnum skilaboðum á framfæri.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.

Missa tök á upplýsingum

Aðspurð um hvernig lögin eru þegar kemur að samfélagsmiðlum segir Helga að það fari alfarið eftir því hver er að deila persónugreinandi upplýsingum, ef það er einstaklingur að tala við lítinn hóp þá fellur það mögulega utan persónuverndarlaganna.

„En þegar hóparnir eru farnir að skipta tugum, hundruð og þúsundum, þá er spurningin, er tjáning einstaklingsins komin á það svið að það þarf að passa persónuvernd annarra,“ segir Helga.

Þá segir hún að það sé mikilvægt að muna að það sé verið að nota tæki og tól samfélagsmiðlanna og ef stjórnvöld eða fyrirtæki tjá sig um málefni ákveðinna einstaklinga á samfélagsmiðlum eru þau búin að missa tök á upplýsingum sem fara þar inn. „Þetta er spurning um hver [deilir upplýsingunum], í hvaða tilgangi og við hvaða aðstæður, þannig það er ekkert alveg svart og hvítt í þessu.“

Siðferðislegt málefni

Elísabet tekur undir með Helgu og segir að málin hafi flækst með tilkomu samfélagsmiðla þar sem fólk deilir oft myndum og upplýsingum um jaðarsetta einstaklinga í þeirri trú að það hjálpi umræddum einstaklingum. „En þá er svo mikilvægt að staldra aðeins við og hugsa hvort þetta er það sem manneskjan myndi vilja að væri á netinu.“

„Þetta er bara siðferðislegt málefni sem að ég tel rétt að við veltum fyrir okkur þegar við erum að horfa upp á það að það séu svona margir einstaklingar heimilislausir á stórhöfuðborgarsvæðinu,“ segir Elísabet og bætir við að þrátt fyrir að einstaklingar séu í neyð þá vilji þeir ekki endilega að alþjóð viti það. „Maður vill alltaf halda reisn, sama á hversu viðkvæmum stað í lífinu maður getur lent.“

Erfiður tími fram undan

Elísabet minnir að lokum á að það sé alltaf hægt að hringja í Frú Ragnheiði ef það þarf sjálft á aðstoð að halda eða ef það vill hjálpa öðrum, þó það sé að sjálfsögðu mælt með að hringja í Neyðarlínuna ef um bráðatilfelli er að ræða. „Það er erfiður tími fram undan, það er orðið rosalega kalt og það eru einstaklingar að athafna sig úti á næturnar, þannig við viljum bara tryggja öryggi þeirra,“ segir Elísabet.

„Ef það er einhver einstaklingur að lesa þetta sem er heimilislaus og er að gista úti, þótt það sé kannski ólíklegt en mögulega einhver, að þá erum við til staðar og við hjá Rauða krossinum getum veitt ráðleggingar og aðstoð við að tengja einstaklinga í rétt úrræði, á þeirra forsendum og í samráði við þau.“