Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, fyrrverandi formaður Samtaka um líkamsvirðingu, segir heimilislækni sinn hafa þrýst á sig að fara á Ozempic, nýtt lyf sem ávísað hefur verið gegn offitu og sykursýki hér á landi. Hún segist hafa kynnt sér lyfin vel og ber þeim ekki vel söguna en hvetur hvern og einn til þess að skoða málið.
Tara segir umræðu síðustu daga um lyfin í kjölfar fréttar Fréttablaðsins um tíföldun ávísana þeira hér á landi hafa rifjað upp atvikið fyrir sér. Árið 2017 fengu 819 manns lyfinu ávísað en í fyrra voru þeir orðnir 8.964.
Tara segir mikilvægt að taka umræðuna um lyfin og segist hafa heyrt margar sögur af því að stálhraust feitt fólk hafi verið sett á lyfin án þess að fá að vita almennilega af hverju og án þess að vera upplýst um aukaverkanir.
Embætti landlæknis vísaði fyrirspurn Fréttablaðsins um ávísanir lyfsins til Lyfjastofnunar. Bíður blaðið enn svara eftir því um hvaða verkferlar eru í gildi um ávísun lyfsins.
Sagði lækna ávísa lyfinu „on the side“
Tara lýsir því í aðsendri grein á Vísi að heimilislæknir hennar hafi boðað hana á sinn fund haustið 2021 og að það hafi komið henni í opna skjöldu, enda ekki lenskan að læknar boði fólk á sinn fund. Tara segist hafa þáð boðið og mætt með kvíðahnút í maganum.
Tara segir lækninn hafa boðað sig á fundinn til þess að segja henni frá nýju undralyfi sem hann hafi haft veður af, Ozempic sem hann taldi geta gagnast Töru. Lyfið væri dýrt, kostaði um 50 þúsund krónur á mánuði og að í sumum tilfellum væri meðferðin til lífstíðar.
„Ástæðan fyrir þessum kostnaði væri sú að lyfið væri ætluð sykursýkissjúklingum en þar sem að ég tilheyrði ekki þeim hóp væri lyfið í raun ekki enn orðið leyfilegt fyrir mig. Hann bætti þó orðrétt við að læknar væru farnir að ávísa því “on the side” og að hann gæti gert það fyrir mig.“
Hafi hrist höfuðið yfir viðbrögðum Töru
Tara segir að hún hafi fylgst náið með umræðunni um lyfið sem Novo Nordisk framleiðir. Hún segist hafa kynnt sér þær rannsóknir sem lágu til grundvallar leyfisveitingu lyfsins.
„Og vissi til dæmis að engin þeirra næði til lengri tíma en 2ja ára og því væri ekkert hægt að segja til um öryggi þeirra hvað varðaði lífstíðarmeðferð. Ég vissi líka að aukaverkanir væru tíðar.“
Þá segir Tara að aukaverkanir á borð við ógleði, hægðatregðu og uppköst séu tíðar, 90 prósent notenda finni fyrir þeim og þá séu dæmi um alvarlegri fylgikvilla líkt og brisbólgu, gallsteina, nýrnabilanir, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir.
Tara segist hafa verið meðvituð um hræðilega sögu megrunarlyfja og segir að allur ávinningur af notkun Ozempic virðist hverfa ef og þegar fólk hættir á lyfinu. Hún segist því hafa afþakkað lyfið.
„Viðbrögð heimilislæknis míns við áhyggjum mínum af ofantöldum aukaverkunum var einfaldlega að hrista höfuðið og gefa frá sér langdregið “neeeiii”. Þarnæst tjáði hann mér að ég þyrfti að treysta honum og teyminu í heilsumóttöku heilsugæslunnar í ljósi fagreynslu þeirra og bætti við að ég þyrfti að hafa hugfast að hann bæri ábyrgð á greiðslum endurhæfingarlífeyrisins sem ég þurfti svo sárlega á að halda nú þegar ég var dottin af vinnumarkaði.“
Tara segir læknirinn hafa verið ófúsan til að taka við hana samtalið um efasemdir hennar um gagnsemi lyfsins. „Þess í stað misbeitti hann uppdiktuðu valdi sínu yfir afkomu minni, á þessum viðkvæma tímapunkti í lífi mínu, til að ógna mér og þröngva lyfinu upp á mig og skammaði mig svo fyrir að treysta honum ekki betur.“
Hún segir um að ræða grafalvarlega misbeitingu á valdi og trúnaðarsambandi milli læknis og sjúklings. Þarna hafi lögbundinn sjálfsákvörðunarréttur hennar yfir eigin líkama og heilsu verið fótum troðinn og segir Tara að hún hafi skipt um heilgusæslustöð samdægurs og sent inn kvörtun til Landlæknis.
Feitt fólk viðkvæmara fyrir misbeitingu
Tara segir umræðu um megrunarlyfin hafa rifjað upp þetta atvik fyrir sér. Mikilvægt sé að taka umræðu um þessa hluti, hvernig feitt fólk sé jaðarsettur hópur innan heilbrigðiskerfisins og viðkvæmari fyrir álíka misbeitingu og Tara hafi orðið fyrir.
„Og um það hvernig lyfjafyrirtæki eru fyrst og fremst skuldbundin hluthöfum sínum frekar en viðskiptavinum. Öðruvísi hefði sú staða ekki komið upp fyrir áramót að skortur varð á lyfinu fyrir sykursjúka fyrir tilstilli ágengrar, að því er virðist óheiðarlegrar, markaðsetningar á lyfinu.“
Hún segist hafa heyrt margar svipaðar sögur þar sem stálhraust feitt fólk hafi verið sett á þessi lyf án þess að vita almennilega af hverju og án þess að vera upplýst um lífsgæðaskerðandi aukaverkanir.
„Það átti bara að treysta. Ég hef heyrt fólk á þessu lyfi tala um að það ætli að reyna að halda ógleðina og vanlíðunina út því að þegar það nái þyngdarmarkmiði sínu muni það hætta á lyfinu og viðhalda árangrinum með bættum lífstíl, óafvitandi að það verði líklega ekki raunin.“
Tara tekur fram að lyfið hafi reynst vel í mörgum tilvikum, sérstaklega fyrir einstaklinga með sykursýki og PCOS og segir mikilvægt að halda því til haga. Hinsvegar séu langtíma rannsóknir á áhrifum þess á ákveðna hópa af skornum skammti.
Hún segir skaðaminni nálganir að heilsufari séu til sem séu til þess fallnar að efla líkamlegt, andlegt og félagslegt heilsufar óháð holdafari. Tara hvetur öll til að kynna sér kosti og galla hverrar nálgunar fyrir sig og taka upplýsta ákvörðun um hvor þeirra henti sér betur.
„Ég vil líka endurtaka ákall mitt til heilbrigðisstarfsfólks að gera slíkt hið sama í því skyni að tryggja að það valdi ekki skaða á borð við þann sem fyrrum heimilislæknir minn olli mér þennan dag, jafnvel þó hann hafi talið sig vera vel meinandi.“