Aðeins 60 heimilislæknar eru á hverja 100 þúsund Íslendinga, sem er meðal lægsta hlutfalls í Evrópu. Á Íslandi eru einnig langfæstir barnalæknar hlutfallslega samkvæmt tölum Evrópusambandsins. Samkvæmt tölum Læknafélagsins eru 847 íslenskir læknar starfandi erlendis.

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélagsins, segir starfsumhverfið erfitt fyrir heimilislækna á Íslandi. Álagið sé mikið og verkefnin óljós. Sumir þeirra séu með tvöfaldan eðlilegan fjölda skjólstæðinga en í Svíþjóð, sem dæmi, hafi nýlega verið sett þak upp á 1100 skráða skjólstæðinga á hvern heimilislækni.

„Innan heilsugæslunnar er illa skilgreint hvað sé hámarksálag á heimilislækni og ekkert þak á fjölda skjólstæðinga,“ segir Steinunn. Á þeim lendi oft flókin verkefni sem ættu að vera á borði annarra sérfræðilækna eða fagstétta. „Þau lenda oft í að vera sálfræðingur, félagsráðgjafi og allt mögulegt fyrir fólk því það vantar fólk úr þeim stéttum á heilsugæsluna.“

Aðeins Grikkir og Pólverjar með færri heimilislækna en Íslendingar. Almennt séð eru Vestur-Evrópuríki með um og yfir 100 heimilislækna á hverja 100 þúsund íbúa en Portúgalar skera sig úr með nærri 300. Finnar sem dæmi eiga meira en tvöfalt fleiri heimilislækna en Íslendingar.

Staðan er verri þegar kemur að barnalæknum, en þar er Ísland langneðst. Þegar kemur að öðrum sérfræðigreinum svo sem kvensjúkdómalæknum, geðlæknum, skurðlæknum og fleiri greinum er Ísland yfirleitt um miðjan lista en í fáum greinum ofarlega á blaði.

Ekki er langt síðan sérfræðinám í heimilislækningum hófst hjá Háskóla Íslands og Steinunn hefur trú á því að það muni laga stöðuna að einhverju leyti. „Við sjáum fram á meiri nýliðun samfara öflugu sérnámi í heimilislækningum hér á landi en það tekur tíma að fullmennta fólk,“ segir hún.

Vandinn er hins vegar ekki aðeins bundinn við sérnámið því að Háskólinn framleiðir einfaldlega of fáa lækna. Á hverju ári eru teknir inn 60 nýnemar en það er sá fjöldi sem Landspítalinn og aðrar heilbrigðisstofnanir á höfuðborgarsvæðinu treysta sér til að taka í verknám.

Ásóknin í námið er hins vegar langtum meiri og á undanförnum árum hafa um það bil jafn margir Íslendingar verið að útskrifast í Slóvakíu, Ungverjalandi og Danmörku og hjá Háskóla Íslands. „Við getum ekki treyst á erlendar læknadeildir til að fylla upp í okkar gat,“ segir Steinunn. Finna þurfi leiðir til að fjölga læknanemum hérlendis.

Annað vandamál er að læknanemar erlendis eru ekki að skila sér nægilega vel heim, eins og áðurnefndar tölur Læknafélagsins sína. Fjöldi íslenskra lækna erlendis er um það bil sá sami og íbúafjöldi Grundarfjarðar. Samkvæmt starfsleyfisskrá Landlæknisembættisins hafa 3205 leyfi til að starfa sem læknar. Þeir sem eru starfandi erlendis eru því rúmlega fjórðungur af þeirri tölu.

Steinunn telur Ísland hafa sóknarfæri að laða þessa lækna heim en þá verði Ísland að geta boðið þeim upp á betri kjör og starfsaðstæður. Þróunin hafi því miður verið í hina áttina, til dæmis með innleiðingu Heilsuveruskilaboðanna. Þau hafa stóraukið álagið á heimilislækna og ekki fækkað komum og símtölum á heilsugæsluna, heldur fjölgað.

Þó að það sé ekki gerð krafa um að heimilislæknar svari skilaboðum á Heilsuveru nema á vinnutíma gerist það samt. „Þau eru vakin og sofin yfir þessum skilaboðum, líka þegar þau eru í fríum,“ segir Steinunn.