Fram kemur í upplýsingum frá Embætti ríkislögreglustjóra að fleiri tilkynningar hafi borist um annars vegar nauðganir og hins vegar heimilisofbeldi og ágreiningsmál fyrstu þrjá mánuði ársins en á sama tímabili í fyrra.

Lögreglunni bárust tilkynningar um 59 nauðganir fyrstu þrjá mánuði ársins, sem samsvarar 17 prósenta fjölgun frá síðustu þremur árum þar á undan. Þá bárust um 610 tilkynningar vegna heimilisofbeldis og ágreinings milli skyldra eða tengdra aðila fyrstu þrjá mánuði ársins. Um er að ræða 19 prósenta aukningu frá síðustu þremur árum þar á undan.

Þá segir að alls hafi verið tilkynnt um 176 kynferðisbrot á þessu tímabili sem er sex prósentum fleiri en voru skráð að meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú árin á undan og er fjöldi tilkynninga um heimilisofbeldi að meðaltali sjö á dag á landsvísu. Það er um 19 prósenta aukning á sama tímabili.