Halldóra Mogensen, þingkona Pírata, hefur verið á leigumarkaði undanfarin ár. Í nóvember fór að bera á veikindum hjá dóttur hennar sem meðal annars lýstu sér í slæmu exemi. „Íbúðin hafði nýlega verið máluð og því leiddi maður ekki hugann að því að mygla gæti orsakað veikindin. Það reyndist þó raunin eftir að sérfræðingar frá Eflu komu og tóku íbúðina út,“ segir Halldóra.

Erfið ákvörðun fyrir jól

Hún hafi því tekið þá ákvörðun að yfirgefa íbúðina með heilsu dóttur sinnar í huga. „Það er ekki léttvæg ákvörðun að gera slíkt rétt fyrir jól en heilsa fjölskyldumeðlima skiptir auðvitað öllu máli,“ segir Halldóra. Ásamt manni sínum og dóttur hefur Halldóra því þurft að gista hjá ættingjum og vinum undanfarnar vikur sem hefur síður en svo verið þægilegt. „Sem betur fer eigum við góða að. Við dvöldum hjá móður minni um tíma og í bílskúr frænku minnar í einhverja daga. Þetta er vissulega erfitt í undirbúningi jóla en þetta hefur samt reddast,“ segir Halldóra.

Réttindaleysi leigjenda átakanlegt

Reynslan hafi þó opnað augu hennar fyrir því hversu berskjaldaðir leigjendur séu þegar leiguíbúðir eru óíbúðarhæfar. „Við erum með gildan leigusamning og því erum við upp á náð og miskunn leigusalans hvort við fáum að losna fyrr undan honum. Það er ekki nema í mjög ýktum dæmum, sem leigjendur öðlast einhver réttindi í slíkum aðstæðum og ég tel að löggjafinn þurfi að skoða þessa viðkvæmu stöðu betur,“ segir Halldóra.

Hyggst ræða málið á Alþingi

Hún hyggst funda með sérfræðingum Eflu vegna málsins og kynna sér málið frá öllum hliðum. „Bara þessi vandræði mín hafa gert það að verkum að maður hefur heyrt margar enn verri sögur. Það þarf að skoða réttarstöðu leigjenda í slíkum dæmum en einnig fyrirbyggjandi aðgerðir vegna myglu. Það er greinilegt að við erum að gera eitthvað vitlaust í uppbyggingu íbúða þegar slík vandamál eru að koma upp.“

Náungakærleikur bjargaði jólunum

Eins og í öllum góðum jólamyndum redduðust þó heimilishrakningar fjölskyldunnar rétt fyrir jól. „Við fundum íbúð hjá yndislegu fólki sem þau ætluðu að leigja okkur frá og með 1. janúar. Þegar þau heyrðu af vandræðum okkar þá leyfðu þau okkur að flytja inn fyrir jól, jafnvel þó að þau væru ekki flutt alveg út. Það er æðislegt að finna fyrir slíkum náungakærleik,“ segir Halldóra.