Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að heimilin muni stíga á neyslubremsuna síðar á árinu en kortavelta landsmanna í júní var sú næstmesta frá upphafi. Velta utan landsteinanna skýrir öran vöxt milli ára. Vaxandi svartsýni meðal almennings og hægari vöxtur kaupmáttar hefur ekki enn sýnileg áhrif á neysluvilja en von er á að þróunin muni snúast við á næstu misserum.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir í samtali við Fréttablaðið að stór þáttur í þeim væntingum sé fall á væntingavísitölunni.

„Það auðvitað endurspeglar áhyggjur af verðbólgunni og tvísýnni efnahagshorfur á heimsvísu,“ segir Jón Bjarki og vísar í að fólk hafi áhyggjur af stríðinu í Úkraínu og þá stöðu að efnahagshorfur séu svartari en áður víðs vegar í heiminum. Einnig megi nefna brattar vaxtahækkanir Seðlabankans sem leiði til hækkandi vaxtastigs í landinu og dragi úr ráðstöfunartekjum hjá hluta almennings.

Svo neikvæðar fréttir leggjast gjarnan illa í almenning og draga úr neyslugleði. Það er líka annað sem verðbólgan gerir og það er að rýra kaupmáttinn.“

Jón Bjarki bætir við að heimilin hafi mörg hver fengið nokkuð myndarlega kaupmáttaraukningu á fyrstu fimm mánuðum ársins með launahækkunum í janúar og aftur í tengslum við hagvaxtaraukann.

„Fæstir eru að fá frekari hækkanir á launum fyrr en samningar takast sem losna í októberlok. Traust fólks á því að það muni hafa það gott fjárhagslega næsta kastið hefur dvínað og mun það líklega hafa áhrif á neysluvilja.“