Katrín Halldóra Sigurðardóttir, söng- og leikkona, stendur í ströngu þessa dagana en fram undan eru stórtónleikar í Eldborg á sunnudaginn þar sem hún mun syngja lög Jóns Múla Árnasonar við texta bróður hans Jónasar Árnasonar af plötu sem hún gaf út í fyrra. Svo er hún líka nýbúin að frumsýna nýtt verk ásamt samstarfsfélögum sínum í Þjóðleikhúsinu, verkið Ást og upplýsingar eftir breska leikskáldið Caryl Churchill sem hlotið hefur mikið lof.

Katrín er mikil fjölskyldukona og elskar að fá fjölskyldu og vini í heimsókn og elda góðan mat. Hún er gift Hallgrími Jóni Hallgrímssyni sem á Óðin og saman eiga þau tæplega tveggja ára gaur, Stíg, og hundinn Edith sem er enskur fjárhundur.

„Ég vinn töluvert mikið heima og elska heimilið mitt, hér líður mér vel. Hér reyni ég líka að æfa mig fyrir verkin sem eru í gangi hjá mér hverju sinni.“

Nú eru það tónleikarnir fram undan sem eiga hug hennar allan. „Páll Óskar er gestasöngvari og ég hlakka mjög mikið til að telja í þessi fallegu lög með þessari stórkostlegu hljómsveit sem verður með mér á sviðinu.“
Fjölskyldan býr í Sundahverfi og unir hag sínum vel. „Við kunnum mjög vel við okkur í þessu hverfi, við höfum verið hér í þó nokkur ár og þar sem við erum með hund hentar mjög vel að hér eru góðar gönguleiðir, stutt að fara í Laugardalinn sem er svo fallegur allan ársins hring. Einnig erum við mjög miðsvæðis og það er stutt í allar áttir.“

Mikill safnari
„Ég myndi ekki segja að ég væri með neinn ákveðinn stíl, heldur meira svona safna ég að mér húsgögnum sem eru bæði falleg og þægileg. Það er praktískt að vera með sófa sem auðvelt er að þrífa þegar maður er með ungbarn. Svo elska ég fallega lýsingu og er með algjört ljósa- og lampablæti. Mér finnst það vera hlutirnir sem fólk hefur safnað að sér og þykir vænt um sem gera heimili að heimili. Maður getur oft séð húmor og áhuga fólks í gegnum heimili þess. Það er gaman þegar hver og einn getur leyft sínum persónuleika að njóta sín á heimilinu.“ Katrín er líka mikill safnari. „Ég elska að safna einhverju, fjölskyldan er mjög ánægð með það því þá er ekki eins erfitt að gefa mér jóla- og afmælisgjafir. Ég er núna til að mynda að safna í uppáhalds stellið mitt, Royal Copenhagen. Mér finnst svo gaman að leggja fallega á borð og er mikið fyrir fallegan borðbúnað. Svo safna ég líka myndlist, í uppáhaldi eru verk með húmor, sem eru skemmtileg og gefa manni tilefni til að brosa, jafnvel hlæja.“

FB-Ernir220330-Katrín-06 (1).jpg

Plötuspilarinn hefur mikið notagildi og munkurinn frá afa Hallgríms við hlið hans er í miklu uppáhaldi.

FB-Ernir220330-Katrín-04 (1).jpg

Katrín safnar myndlist og segir verk með húmor sem jafnvel kalli fram bros eða hlátur í sérlegu uppáhaldi.

FB-Ernir220330-Katrín-05.jpg

Rjúpuna eftir Kristján keypti Katrín á Sólheimum í Grímsnesi.


Lifandi og skemmtilegt heimili

Hægt er að sjá að tónlistarfólk er á heimilinu og eiga hjónin plötuspilara sem er mikið notaður. Þessa dagana eru það helst gömlu vínil-barnaplöturnar sem fá að óma en litli drengurinn þeirra heldur mikið upp á Dýrin í Hálsaskógi. „Við erum bæði tónlistarfólk og það er ómissandi að hafa píanó á heimilinu, hér koma píanóleikarar oft að æfa með mér og þetta er lifandi og skemmtilegt heimili.“

Hlutir sem hafa tilfinningalegt gildi prýða líka heimili Katrínar. „Mér þykir vænt um Munkinn sem við geymum undir lampa í stofunni, hann er frá afa Hallgríms, eins eru alls konar munir sem ég á og geymi frá ömmum mínum í sérstöku uppáhaldi. Til dæmis mánaðarbollarnir frá ömmu. Það sem gerir líka heimili að heimili eru hlutirnir sem eru í fjölskyldunni og minna okkur á fólkið okkar, það yljar okkur í hjartanu.“

Katrín Halldóra bolli og diskur 01 (1).jpg

Hinn forkunnarfagri bolli frá ömmu Katrínar úr Royal Copenhagen stellinu og línan heitir Prinsess. Katrín heldur mikið upp á þessa bolla. FRÉTTABLAÐIÐ SIGTRYGGUR ARI.

Katrín Halldóra bolli og diskur 02.jpg

Fallegur mæðradagsplattinn sem prýðir vegg heimilissins. FRÉTTABLAÐIÐ SIGTRYGGUR ARI.

FB-Ernir220330-Katrín-01.jpg

Katrín og eiginmaður hennar, Hallgrímur Jón, eru bæði tónlistarfólk og ber heimilið þess merki.


Snickerskakan hennar Katrínar

Þar sem það styttist í páskana gefur Katrín lesendum uppskrift af vinsælustu kökunni á heimilinu sem gestirnir panta. „Saga Garðars vinkona elskar þessa köku og er alveg tryllt í hana. Pantar hana oft. En þetta er hrákaka sem ég lærði að gera á Gló þegar ég vann þar samhliða leiklistarnáminu og uppskriftin er eftir Sollu Eiríks. Ég hef þó aðeins tvistað hana til. Kakan ber heitið Snickerskakan og hún er meinholl, getum líka kallað hana Bombu.“

FB-Ernir220330-Katrín-14.jpg

Snickers-hrákakan frá Gló sem Halldóra Katrín hefur tvistað til.

Snickerskaka Gló

Botninn

100 g möndlur
100 g döðlur
Smá salt
1 tsk. vanilla
1 dl lífrænt hnetusmjör gróft
1 tsk. maca-duft
1 msk. kókosolía fljótandi
Salthnetur

Blandið saman möndlum og döðlum í matvinnsluvél. Restinni af uppskriftinni síðan bætt út í og blandað saman. Þjappið blöndunni saman í form.
Stráið 1½-2 dl af salthnetum ofan á og setjið svo botninn í frysti á meðan þið útbúið karamelluna og súkkulaðið.


Karamellan
1 ½ dl hlynsíróp
1 dl kókosolía
1 dl hnetusmjör
½ tsk. gróft sjávarsalt
1 tsk. kakóduft

Setjið allt í blandara og blandið saman á lágum hraða. Hellið síðan karamellunni yfir botninn og salthneturnar.


Súkkulaðið
½ dl kókosolía fljótandi
½ dl kakóduft
Örlítið salt
5 dropar af stevíu
5 dropar af súkkulaðidropum

Hrærið öllu saman í skál og hellið yfir karamelluna. Setjið aftur inn í frystinn í smástund til að leyfa súkkulaðinu að storkna.