Ráðist var á heimili Elísabetar Guðmundsdóttur, lýtalæknis, í gær en hún hefur vakið töluverða athygli fyrir andúð sína á sóttvarnaaðgerðum yfirvalda. Hún neitaði meðal annars að gangast undir sóttkví eða skimun við komu til landsins í desember.
Elísabet segir frá því á Facebook í gærkvöldi að ráðist hafi verið á heimili hennar og segir um leið að henni hafi borist fjölda alvarlegra hótana.
„Ofbeldið gegn mér tekur engan enda og netníðingar eru farnir að ráðast á mig á heimili mínu og ég hef sent börnin mín í öryggi. Ég er særð, leið, hrædd og vanmáttug, er beitt ofbeldi og einelti ekki aðeins yfirvalda og lögreglu heldur einnig samlanda minna. Mér hafa borist alvarlegar hótanir um barsmíðar, nauðganir og líflát og hef greint lögreglu frá því í tvígang og beðið um aðstoð/vernd," skrifar hún á Facebook.
Hún segir að síðustu vikur hafi verið óraunverulegar og að hún sé einungis búin að vera að benda fólki á og ræða það opinberlega hvað þjóðin geti gert til að styrkja ónæmiskerfi sitt. Bent á langtíma áhrif félagslegrar einangrunar og grímunotkunar á börn.
Óttast um líf sitt
Elísabet segist farin að óttast um líf sitt eftir árásina á heimili sitt í gær og biður Íslendinga um stuðning áður en það verði of seint.
„Það kæmi varla nokkrum manni á óvart ef ég hyrfi eða hreinlega fyndist dáin vegna “sjálfsvígs” eða létist “af slysförum”, en slíkt hefur svo sannarlega gerst á Íslandi margoft áður þegar ekki tekst að þagga fólk. Það var byrjað með því að reka mig af Háskólasjúkrahúsinu okkar allra, 1,5 mánuði síðar voru starfsréttindi mín tekin af mér, síðan tók lögreglan við, en ég hef verið stöðvuð 6 sinnum á 3 vikum af lögreglunni m.a. vegna gruns um að t.d. taka of hægt af stað á grænu ljósi og vegna gruns um að hafa hugsanleg ætlað grímulaus inn í verslun."
Þá var Elísabet handtekin síðastliðið fimmtudagskvöld í Hafnarfirði fyrir að mæta ekki í yfirheyrslu vegna málsins sem kom upp í desember á Keflavíkurflugvelli þegar hún neitaði að gangast undir sóttkví eða skimun. Hún birti myndband af handtökunni á Facebook-síðu sinni þar sem hún sagðist hafa verið „handtekin, handjárnuð og barin“.
Skúli Jónsson, stöðvarstjóri hjá lögreglunni í Hafnarfirði sagði í samtali við Fréttablaðið á föstudag að Elísabet hafi ekki verið lamin.
„Hún sinnti ekki kvaðningu út af málinu þegar hún kom erlendis frá. Við birtum henni kvaðningu og hún átti að mæta í yfirheyrslu þegar sóttkví lauk en mætti ekki og þetta er framhald af því. Hún var yfirheyrð og látin laus. Lögregla er ekkert að berja fólk,“ sagði Skúli.