Líkt og fram kom í máli Mette Frederikssen, forsætisráðherra Damerkur í síðustu viku stendur til að aflífa alla minka í landinu, sem eru um sautján milljónir talsins. Á Norð­ur­-Jót­landi hefur greinst stökk­breytt kór­ónu­veira í bæði mönnum og minkum. Yfirvöld hafa áhyggjur að fyrirhugað bóluefni gegn Covid-19 muni ekki virka gegn þessari stökkbreytingu.

Í gær var greint frá því í danska ríkisútvarpinu DR að yfirvöld í landinu hafi heimild til að aflífa dýr á búum þar sem upp er kominn sjúkdómur sem og á búum innan þess landssvæðið sem sjúkdómurinn kemur upp. Í þessu tilfelli á Norður-Jótlandi. Hins vegar er ekki lagaleg heimild fyrir því að aflífa dýr á búum annars staðar í landinu. Því er krafa yfirvalda um að aflífa alla minka í landinu ólögleg.

Morgen Jensen, landbúnaðarráðherra Danmerkur, sagði í viðtali við TV2 News í morgun að hann hafi ekki vitað að það væri ólöglegt að krefjast þess að allir minkar í landinu yrðu aflífaðir.

Ráðherrann segist ekki hafa verið upplýstur um að engin lagaheimild væri fyrir því að aflífa alla minka í landinu þegar ríkisstjórnin tilkynnti þetta á blaðamannafundi á miðvikudaginn í síðustu viku.

Hafist var handa við að aflífa minkana strax á föstudag.
AFP

Á blaðamannafundinum þann 4. nóvember tilkynnti Mette Frederik­sen, forsætisráðherra Danmerkur að allir minkar á öllum búum lands­ins yrðu drepnir. Þetta yrði gert til þess að koma í veg fyrir að stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar myndi dreifa sér enn frekar.

Ríkisstjórnin hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að gefa þessa yfirlýsingu út án þess að hafa heimild fyrir því að aflífa alla minka í landinu og að skilaboðin til minkaræktenda hafi verið óskýr.

Leggja fram fumvarp í dag

Jensen segist harma málið og viðurkennir að þetta líti illa út fyrir ríkisstjórnina. „Ég viðurkenni að þetta voru stór mistök af okkar hálfu. Danska rík­is­stjórnin mun leggja fram frum­varp í dag sem mun veita yfir­völdum aðgang að öllum minka­búum lands­ins." Til stendur að koma frumvarpinu með með hraði í gegnum þing­ið. Flýti­með­ferðin er að sögn land­bún­að­ar­ráð­herr­ans nauð­syn­leg vegna alvar­leika máls­ins. Svo alvar­leg sé staðan að ekki hafi þótt rétt­læt­an­legt að bíða með að til­kynna um ákvörðun stjórn­valda þar til frum­varpið lægi fyr­ir.

Jensen hvetur minkaræktendur til þess að halda áfram að aflífa minka af lýðheilsuástæðum, jafnvel þótt yfirvöld hafi ekki lagaheimild til þess að krefjast þess.

Vilja að hann segi af sér

Í viðtalinu við TV2 News var hann spurður hvort hann geti setið áfram sem ráðherra eftir þessi mistök.

„Það eina sem ég get sagt er að ég tek fulla ábyrgð á því sem fer fram í mínu ráðuneyti. Það er ekki mitt að ákvarða hvort ég sé enn þá hæfur sem ráðherra." Formaður danska þjóð­ar­flokk­sins, eða Dansk ­Fol­ke­parti hefur krafist þess að hann segi af sér.