Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins undirbýr nú útgáfu yfirlýsingar til þess að heimila Rússum að flytja vörur til Kalíníngrad í gegnum Litáen.

Kalíníngrad er vestasta hérað Rússlands en er aðskilið öðru rússnesku landsvæði. Til þess að flytja vörur þangað landleiðina frá Rússlandi verður að fara í gegnum Litáen eða Pólland. Litáar lokuðu fyrir vöruflutninga í gegnum landsvæði sitt frá Rússlandi til Kalíníngrad frá 17. júní í samræmi við viðskiptaþvinganirnar sem Evrópusambandið hefur lagt á Rússa vegna innrásarinnar í Úkraínu. Hafa því flutningar á stáli, áli og byggingarefnum til Kalíníngrad verið stöðvaðir.

Nú áætlar framkvæmdastjórn ESB að heimila vöruflutning til Kalíníngrad að því gefnu að hann fari ekki yfir það magn sem viðgekkst fyrir innrásina í Úkraínu. Ríkisstjórn Þýskalands er hlynnt þessari stefnubreytingu en Litáar hafa lýst yfir óánægju með hana.