Sam­kvæmt nýjustu til­mælum Sótt­varna­stofnunar Banda­ríkjanna (CDC) er full­bólu­settum Banda­ríkja­mönnum frjálst að ferðast bæði innan­lands og utan­lands svo lengi sem þeir fylgja helstu sótt­varna­reglum.

Sam­kvæmt til­mælunum þurfa full­bólu­settir Banda­ríkja­menn nú ekki að gangast undir sýna­töku fyrir brott­för, nema lands­yfir­völd á á­fanga­stað krefjist þess, né heldur þurfa þeir að gangast undir sótt­kví við heim­komu, nema staðar­yfir­völd krefjist þess sér­stak­lega.

Í til­mælunum, sem gefin voru út á föstu­dag, segir meðal annars:

„Full­bólu­settir ferða­langar eru ó­lík­legri til að smitast af og dreifa CO­VID-19. Hins vegar myndast aukin á­hætta við milli­landa­flug og jafn­vel full­bólu­settir ferða­langar eru undir aukinni hættu á að smitast af og dreifa CO­VID-19.“

Í frétt New York Times um málið er rang­lega greint frá því að banda­rískir ferða­langar sem hafa verið full­bólu­settir eða geta sýnt fram á vott­orð um fyrri sýkingu, geti ferðast til Ís­lands án þess að þurfa að sæta sýna­töku eða sótt­kví. Fjöl­miðillinn vísar þar í úr­eltar upp­lýsingar frá vef Stjórnar­ráðsins sem hafði greint frá því um miðjan mars að undan­þágur á sótt­varna­reglum fyrir bólu­setta ein­stak­linga sem ferðast hingað til lands yrðu fram­lengdar til ferða­manna utan Schen­gen-ríkja frá og með 26. mars.

Sam­kvæmt nýjum sótt­varna­reglum sem tóku gildi á landa­mærum Ís­lands 1. apríl þurfa allir ferða­menn að gangast undir tvær sýna­tökur og fimm daga sótt­kví við komu. Þeir sem geta sýnt fram á bólu­setningar­vott­orð eða vott­orð um fyrra smit þurfa ekki að fara í sótt­kví en eina sýna­töku.

Frá fyrsta blaðamannafundi Joe Biden, Bandaríkjaforseta, í Hvíta húsinu.
Fréttablaðið/Getty

200 milljón skammtar af bóluefni á fyrstu 100 dögunum

Bólu­setningar hafa gengið hratt fyrir sig í Banda­ríkjunum undan­farnar vikur. Hafa nú tæpar 58 milljónir, eða 17,5 prósent, verið full­bólu­settar og 101 milljón, um 30 prósent, fengið fyrsta skammt.

Á fyrsta blaða­manna­fundi em­bættis­tíðar Joes Biden Banda­ríkja­for­seta, sem haldinn var í Hvíta húsinu 25. mars síðast­liðinn, lofaði Biden að gefa 200 milljónir skammta af bólu­efni á fyrstu hundrað dögum for­seta­tíðar sinnar, tvöföldun frá fyrri markmiði hans um að gefa 100 milljón skammta.

„Ég veit að þetta er metnaðarfullt, tvöfalt upprunalegt markmið okkar, en ekkert annað land í heiminum kemst nálægt því sem við erum að gera,“ sagði Joe Biden á blaðamannafundinum í síðustu viku.

Biden sór embættiseið þann 20. janúar síðastliðinn og samkvæmt gögnum CDC hafa nú þegar verið gefnir tæplega 158 milljón skammtar af bóluefni í Bandaríkjunum sem þýðir að forsetinn hefur um fjórar vikur til að klára að gefa þær 42 milljónir skammta sem eftir eru.