Samkvæmt nýjustu tilmælum Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna (CDC) er fullbólusettum Bandaríkjamönnum frjálst að ferðast bæði innanlands og utanlands svo lengi sem þeir fylgja helstu sóttvarnareglum.
Samkvæmt tilmælunum þurfa fullbólusettir Bandaríkjamenn nú ekki að gangast undir sýnatöku fyrir brottför, nema landsyfirvöld á áfangastað krefjist þess, né heldur þurfa þeir að gangast undir sóttkví við heimkomu, nema staðaryfirvöld krefjist þess sérstaklega.
Í tilmælunum, sem gefin voru út á föstudag, segir meðal annars:
„Fullbólusettir ferðalangar eru ólíklegri til að smitast af og dreifa COVID-19. Hins vegar myndast aukin áhætta við millilandaflug og jafnvel fullbólusettir ferðalangar eru undir aukinni hættu á að smitast af og dreifa COVID-19.“
Í frétt New York Times um málið er ranglega greint frá því að bandarískir ferðalangar sem hafa verið fullbólusettir eða geta sýnt fram á vottorð um fyrri sýkingu, geti ferðast til Íslands án þess að þurfa að sæta sýnatöku eða sóttkví. Fjölmiðillinn vísar þar í úreltar upplýsingar frá vef Stjórnarráðsins sem hafði greint frá því um miðjan mars að undanþágur á sóttvarnareglum fyrir bólusetta einstaklinga sem ferðast hingað til lands yrðu framlengdar til ferðamanna utan Schengen-ríkja frá og með 26. mars.
Samkvæmt nýjum sóttvarnareglum sem tóku gildi á landamærum Íslands 1. apríl þurfa allir ferðamenn að gangast undir tvær sýnatökur og fimm daga sóttkví við komu. Þeir sem geta sýnt fram á bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrra smit þurfa ekki að fara í sóttkví en eina sýnatöku.

200 milljón skammtar af bóluefni á fyrstu 100 dögunum
Bólusetningar hafa gengið hratt fyrir sig í Bandaríkjunum undanfarnar vikur. Hafa nú tæpar 58 milljónir, eða 17,5 prósent, verið fullbólusettar og 101 milljón, um 30 prósent, fengið fyrsta skammt.
Á fyrsta blaðamannafundi embættistíðar Joes Biden Bandaríkjaforseta, sem haldinn var í Hvíta húsinu 25. mars síðastliðinn, lofaði Biden að gefa 200 milljónir skammta af bóluefni á fyrstu hundrað dögum forsetatíðar sinnar, tvöföldun frá fyrri markmiði hans um að gefa 100 milljón skammta.
„Ég veit að þetta er metnaðarfullt, tvöfalt upprunalegt markmið okkar, en ekkert annað land í heiminum kemst nálægt því sem við erum að gera,“ sagði Joe Biden á blaðamannafundinum í síðustu viku.
Biden sór embættiseið þann 20. janúar síðastliðinn og samkvæmt gögnum CDC hafa nú þegar verið gefnir tæplega 158 milljón skammtar af bóluefni í Bandaríkjunum sem þýðir að forsetinn hefur um fjórar vikur til að klára að gefa þær 42 milljónir skammta sem eftir eru.