Lyfja­stofnun Evrópu mælir nú með bólu­setningu barna á aldrinum 5 til 11 ára með bólu­efni Pfizer. Frá þessu er greint á vef Lyfja­stofnunar.

Bólu­efnið er nú þegar notað við bólu­setningu barna á aldrinum 12 til 18 ára og á full­orðna. Fram kemur í til­kynningu Lyfja­stofnunar að minni skammtur verði notaður á börn á aldrinum 5 til 11 ára, eða þriðjungur þess sem að 12 ára og eldri frá. Eins og aðrir þá er mælt með því að börnin fái tvær sprautur með þriggja vikna milli­bili.

Sam­kvæmt niður­stöðum rann­sóknar sem gerð var á virkni bólu­efnisins í aldurs­hópnum var mót­efna­svar þeirra svipað og hjá eldri hópum, þótt þau fengu minni skammt.

Skil­virkni bólu­efnisins var reiknað út í tvö þúsund börnum sem tóku þátt í rann­sókninni og voru á aldrinum 5 til 11 ára og höfðu ekki sýkst af Co­vid-19 áður.

Börnunum var annað hvort gefið bólu­efnið eða lyf­leysa og af 1.305 börnum sem fengu bólu­efnið fengu þrjú Co­vid-19 miðað við 16 af þeim sem fengu lyf­leysuna.

Það þýðir að sam­kvæmt rann­sókninni er bólu­efnið 90,7 prósent skil­virkt að koma í veg fyrir ein­kenni vegna Co­vid-19.

Fram kemur í til­kynningunni að al­gengustu auka­verkanirnar sem börnin töluðu um eftir að hafa þegið bólu­setninguna voru verkir á stungu­stað, þreyta höfuð­verkur, roði og eymsli á stungu­stað, vöðva­verkir og kulda­köst. Auka­verkanirnar voru yfir­leitt vægar og hurfu á nokkrum dögum.

Sam­kvæmt því komst nefnd Lyfja­stofnunar Evrópu að því að kostir þess að bólu­setja börn á aldrinum 5 til 11 ára með bólu­efni Pfizer væru meiri en á­hættan sem gæti fylgt því.

Nefndin hefur sent ráð­leggingar sínar til fram­kvæmda­stjórar Evrópu­sam­bandsins sem tekur loka­á­kvörðun um málið í Evrópu.