Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, setur spurningarmerki við áætlanir um að koma upp heimavistum fyrir framhaldsskólanema í Reykjavík. En sérstaklega er horft til iðngreina í því samhengi. Þóroddur, sem var áður stjórnarformaður Byggðastofnunar, segir að byggja þurfi upp iðngreinanám á landsbyggðinni.

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í febrúar síðastliðnum að koma heimavist á koppinn, í samvinnu við menntamálaráðuneytið. Er ráðuneytið um þessar mundir að þreifa fyrir sér með könnunum til foreldra framhaldsskólanema.

Bendir Þóroddur á að í upphafi hafi verið einn menntaskóli í landinu, en síðan hafi verið byggðir upp skólar á framhaldsskólastiginu úti um allt land, með því markmiði að nemendur gætu áfram búið í heimabyggð. Samfara því hefur nemendum á heimavistum fækkað.

„Skólarnir á landsbyggðinni hafa byggt upp samstarfsnet byggt á nútímaaðferðum, svo sem fjarkennslu, til að vinna gegn fámenninu,“ segir Þóroddur. „Iðn- og verknámið hefur hins vegar setið á hakanum, að hluta til af því að það er dýrara.“

Utan höfuðborgarsvæðisins eru tveir verknámsskólar, á Akureyri og í Neskaupstað, en fab lab-stöðvar eru einnig á nokkrum stöðum. Sumar greinar er aðeins hægt að læra á höfuðborgarsvæðinu og námið þannig uppbyggt að nemendur búi á ákveðnum stað að staðaldri.

„Við þurfum að huga að því hvort við viljum styrkja verknámið með samstarfi úti um allt land,“ segir Þóroddur og nefnir að verklegt hjúkrunarfræðinám á Akureyri sé kennt í lotum. „Það er því vel hægt að vera búsettur á Ísafirði í hjúkrunarfræðinámi. Við höfum ekki hugsað út í sveigjanleika varðandi verknámið í samstarfi við þær stofnanir sem til eru.“

Samkvæmt Þóroddi er skortur á verkmenntuðu fólki á landsbyggðinni en atvinnulífið þar þurfi sérstaklega á verkmenntuðu fólki að halda. Einnig að rannsóknir sýni að búseta á námsárum hafi mikil áhrif á framtíðarbúsetu. Um þriðjungur háskólanema af landsbyggðinni snýr heim fimm árum eftir útskrift. En 75 prósent fjarskólanemenda eru enn í heimabyggð á sama tíma. „Þetta virkar líka í hina áttina, því Reykvíkingar sem koma til Akureyrar í staðarnám, eru ólíklegir til að snúa aftur,“ segir Þóroddur. Námsárin eru mótandi ár og fólk að koma sér upp samböndum og eignast börn.

„Ef við ákveðum að byggja allt iðnnám upp í Reykjavík, munu flestir iðnmenntaðir búa áfram þar. Ef við eflum iðnnám á Vestfjörðum, munu fleiri iðnmenntaðir búa þar áfram. Við þurfum því að hugsa þetta stórt og heildrænt fyrir landið allt. Við skulum ekki fara aftur til ársins 1950.“

Aðspurður um val nemenda segist Þóroddur alls ekki mótfallinn því, og ekki heldur að byggðar séu heimavistir í Reykjavík, ef hugað er vel að heildarmyndinni. „Það er besta mál ef fólk vill flytja suður, en ekki að það neyðist til þess sextán ára vegna þess að það vill fara í bifvélavirkjun.“

Segir hann að sömu lögmál gildi að einhverju leyti um hið bóklega nám einnig. Vissulega hafi framhaldsskólum fjölgað á landsbyggðinni. Meðal annars á Grundarfirði 2004 og Ólafsfirði 2010. En ef allt púðrið er sett í að auðvelda nemendum að stunda nám á höfuðborgarsvæðinu, dragi það úr valmöguleikanum að stunda nám í heimabyggð.