Kristjen Nielsen, heimavarnarráðherra Bandaríkjanna, mun láta af störfum. Kevin McAleen, yfirmaður bandaríska landamæraeftirlitsins mun taka tímabundið við stöðunni.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni fyrr í kvöld þar sem hann þakkaði Nielsen fyrir störf sín.

Nielsen hefur gegnt starfi heimavarnarráðherra frá því í desember 2017. Hefur hún verið gagnrýnd fyrir að halda úti umdeildri landamærastefnu forsetans. Þá bar ráðuneyti hennar ábyrgð á umdeildum aðgerðum sem sneru að því að aðskilja fjölskyldur sem komu ólöglega yfir landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó.

Tilkynning forsetans kemur daginn eftir að hann heimsótti suðurhluta landamæranna, að því sem fram kemur í frétt BBC um málið.

Bandaríkjaforseti hótaði nýlega að loka landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, en dró hótunina skömmu síðar til baka.