Lögreglan í Noregi hefur staðfest við fréttastofuna Verdens Gang að heimavarnarlið Noregs mun aðstoða við gæslu á olíu og gasvinnslustöðvum sem staðsettar eru innan landsins. Hermönnum verður komið fyrir á nokkrum lykilstöðum víðsvegar um landið á mánudaginn.

Heimavarnarliðið mun meðal annars vera með viðbúnað við vinnslustöð í Kårstø í Tysvær en búist er við að hermenn verði einnig kallaði inn til að verja innviði í Møre og Romsdal.

„Við höfum beðið um aðstoð frá heimavarnarliðinu. Þetta verður sett af stað á morgun,“ sagði Håkon Strand starfsmannastjóri suðvestur umdæmis lögreglunnar í Noregi.

Heimavarnarlið Noregs við æfingar í Elval í Noregi.
Mynd/Getty

Hafa samþykkt að aðstoða lögregluna

Heimvarnarliðið mun leysa lögregluna af hólmi með viðveru sinni en lögregla mun samt sem áður hafa nokkurn mannafla á svæðinu þeim til stuðnings og til almennrar löggæslu.

„Heimavarnarliði hefur samþykkt að aðstoða lögregluna við vernd á innviðum tengdum orkuframleiðslu, sem er hlutverk lögreglu á friðartímum“ sagði Per Gunnar Grosberghaugen liðsforingi og samskiptastjóri heimavarnarliðsins í samtali við norsku fréttastofuna NRK.

Þetta kemur í kjölfar þeirra skemmda sem unnar voru á NordStream gasleiðslunni í Eystrasalts hafinu fyrr í þessari viku en mörg af norðurlöndunum telja að um skemmdarverk hafi verið að ræða.

Heimavarnarlið Noregs samanstendur af 40.000 hermönnum sem dreifðir eru um 11 mismunandi svæði innan landsins.