Sameining fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi var samþykkt í gær og munu því Borgarfjarðarhreppur, Djúpavogshreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður og Fljótsdalshérað verða að einu sveitarfélagi á næsta ári. Bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, Björn Ingimarsson, segist ánægður með hver afgerandi niðurstöður kosningarinnar voru. Hann útilokar ekki að sækjast eftir sveitarstjórastöðu hins sameinaða sveitarfélags.

Skýr skilaboð

„Þetta leggst mjög vel í okkur og það er auðvitað mjög ánægjulegt að þetta skyldu vera svona afgerandi niðurstöður. Það hefði verið verra ef það hefði munað litlu en þetta segir okkur að þær tillögur sem við kynntum og létum kjósa um voru íbúunum að skapi,“ segir Björn í samtali við Fréttablaðið.

Kjörsókn var misjöfn í sveitarfélögunum og var einnig nokkur munur á afstöðu fólks eftir sveitarfélögunum. Kosningaþátttakan var langminnst meðal íbúa Fljótsdalshéraðs en þar voru 93% fylgjandi sameiningu. Á Seyðisfirði voru 87% fylgjandi sameiningu sveitarfélaganna og var kjörsóknin 71%. Í Borgarfjarðarhreppi voru 66% fylgjandi sameiningu og kjörsóknin 72% en minnsta fylgið hlaut sameiningin á Djúpavogi þar sem 64% voru fylgjandi og kjörsókn 78%.

Þunginn í stjórnsýslunni verður að öllum líkindum á Egilsstöðum.

„Þetta eru skýr skilaboð til okkar, sem erum svo að vinna þetta áfram, að einhenda okkur í að framkvæma hlutina samkvæmt tillögunum,“ segir Björn. Fjárhagur sveitarfélaganna fjögurra hefur verið nokkuð bágur en Björn segir að fjárhagur sameinaðs sveitarfélags muni verða traustur. „Við munum ná að verða við hinum og þessum fjárfestingar- og viðhaldshugmyndum sem menn hafa ekki treyst sér til að setja inn í fjárhagsáætlanir hingað til. Við náum að dekka það á næstu tíu árum.“

„Það er svo líka þjónustan sem íbúarnir eru að horfa á og við sjáum fram á að ná að efla hana. En svo er það bara aukinn slagkraftur sem sameinað sveitarfélag hefur. Það verður mun öflugra að ná í gegn hagsmunamálum fyrir svæðið heldur en hvert sveitarfélag fyrir sig,“ heldur hann áfram. Hann segir hópinn sem vann að tillögunum um sameiningu hafa fundið það undanfarið ár á fundum sínum með þingflokkum og fleirum.

Ýmsar hugmyndir um nafn komið fram

En hvernig fer sameiningin fram? „Það sem skeður núna er að sveitastjórnirnar munu skipa undirbúningsstjórn sem mun þá fara í það að vinna samþykktir fyrir sameinað sveitarfélag og undirbúa þá líka kosningar, gera tillögu að kjördegi meðal annars,“ svarar Björn og segir hópinn hafa lagt upp með að kosningar fari fram næsta vor.

Undirbúningsstjórnin mun þá einnig undirbúa stjórnsýslu og annað fyrir sameinað sveitarfélag þegar það tekur við. Björn segir þá alveg ljóst að stjórnsýslan fari fram á öllum stöðunum innan sveitarfélagsins en ekki bara í einu þeirra. „Við erum að horfa til þessa heimastjórnunarfyrirkomulags. Við viljum halda í mannauðinn á hverjum stað, bæði starfsfólk og kjörna fulltrúa. Afgreiðslur mála munu því fara fram á öllum stöðum og áherslan verður á að starfsfólk geti þá ákveðið hvar það staðsetur sig. Þetta verða svona störf án staðsetningar,“ segir hann. Þunginn í stjórnsýslunni verði þó að öllum líkindum á Egilsstöðum.

Börn vildi þá ekkert gefa upp um hugmyndir sem fram hefðu komið að nýju nafni á sveitarfélagið. „Ýmsu hefur verið varpað fram en það verður verkefni sveitarstjórnar sameinaða sveitarfélagsins að finna því nafn.“ Hann útilokar þá ekki að hann muni sækjast eftir sveitarstjórastöðunni: „Ég hef kunnað ágætlega við að vinna í þessu samfélagi hér og er alveg til í að starfa með því áfram,“ segir hann.