Norsk rannsókn sýnir fram á að það sé heilsuspillandi að vinna óslitið heilan vinnudag. Í niðurstöðum rannsóknarinnar sem fjallað er um á Norska ríkisútvarpinu kemur fram að andleg heilsa líði fyrir metnaðinn. Starfsfólk sem tekur sér ekki hlé er þar af leiðandi sjö sinnum líklegra til að glíma við andlega og líkamlega kvilla en þau sem standa upp og hugsa um eitthvað annað en vinnuna.
„Margir vinna og vinna í gegnum daginn án þess að veita neinu öðru athygli,“ segir Leif Rydsted, annar höfundur rannsóknarinnar. Leif starfar ásamt David Andersen sem prófessor í sálfræði við Háskólann í Innlands héraði í Noregi.
Mestur ávinningur af hádegishléi
Eitt af því kom rannsakendum verulega á óvart hversu mikil áhrif það hafði á líðan fólks að nýta sér matmálstíma.
„Það hefur meira að segja fyrir fólk að taka sér hlé yfir vinnudaginn en að ná að kúpla sig alveg frá vinnunni í frítímanum.“ Fyrri rannsóknir hafi sýnt að fólk sem eigi erfitt með að aftengjast vinnunni í frítíma sínum standi sig verr með tímanum. „En það kom á óvart að áhrifin væru svo mikil þegar kemur að hléum yfir daginn.“
Leif segir atvinnuveitendur því ekki eiga að hrósa starfsfólki sem sleppir matmálstímum og fullyrðir að það skaði heilsuna að vera svona „dugleg“ í vinnunni.