Norsk rann­sókn sýnir fram á að það sé heilsu­spillandi að vinna ó­slitið heilan vinnu­dag. Í niður­stöðum rann­sóknarinnar sem fjallað er um á Norska ríkis­út­varpinu kemur fram að and­leg heilsa líði fyrir metnaðinn. Starfs­fólk sem tekur sér ekki hlé er þar af leiðandi sjö sinnum lík­legra til að glíma við and­lega og líkam­lega kvilla en þau sem standa upp og hugsa um eitt­hvað annað en vinnuna.

„Margir vinna og vinna í gegnum daginn án þess að veita neinu öðru at­hygli,“ segir Leif Ryd­sted, annar höfundur rann­sóknarinnar. Leif starfar á­samt David Ander­sen sem prófessor í sál­fræði við Há­skólann í Inn­lands héraði í Noregi.

Mestur ávinningur af hádegishléi

Eitt af því kom rann­sak­endum veru­lega á ó­vart hversu mikil á­hrif það hafði á líðan fólks að nýta sér mat­máls­tíma.

„Það hefur meira að segja fyrir fólk að taka sér hlé yfir vinnu­daginn en að ná að kúpla sig alveg frá vinnunni í frí­tímanum.“ Fyrri rann­sóknir hafi sýnt að fólk sem eigi erfitt með að af­tengjast vinnunni í frí­tíma sínum standi sig verr með tímanum. „En það kom á ó­vart að á­hrifin væru svo mikil þegar kemur að hléum yfir daginn.“

Leif segir at­vinnu­veit­endur því ekki eiga að hrósa starfs­fólki sem sleppir mat­máls­tímum og full­yrðir að það skaði heilsuna að vera svona „dug­leg“ í vinnunni.