„Ég held að titringurinn í þessu sé bara heilsusamlegur,“ segir Grétar Gústavsson bifvélavirki sem ásamt félaga sínum Karli G. Friðrikssyni, framkvæmdastjóra Nýsköpunarmiðstöðvar, ekur nú á traktor í kring um Vestfjarðakjálkann til að safna fé fyrir Barnaheill og ber sig vel.

Grétar og Karl lögðu upp frá Staðarskála á miðvikudag. Fyrstu nóttina gistu þeir í Hólmavík þar sem þeir segjast hafa notið gestrisni heimamanna. Í gær héldu þeir yfir Steingrímsfjarðarheiði og að bænum Hamri á Langadalsströnd. Ætlunin er síðan að lengja dagleiðirnar og ljúka hringferðinni miðvikudaginn 20. júlí.

Þeir Grétar og Karl voru báðir í sveit sem litlir drengir á bænum Valdarási í Fitjárdal inn af Víðidal. Þangað kom Grétar fyrst fimm ára gamall árið 1958 og Karl tveimur sumrum síðar. „Á hátíðarstundu teljum við okkur báðir vera Húnvetninga,“ segir Karl.

Árið 1963 þegar Grétar var tíu ára og Karl átta ára keypti bóndinn á bænum, Axel Guðmundsson, spánnýja dráttarvél. „Hann kunni aldrei að keyra og ég stjórnaði þessu fyrir hann,“ segir Grétar.

„Það var eins og Rolls Royce væri kominn í hlaðið og við byrjuðum bæði að vinna og leika okkur á þessari vél,“ segir Karl um nýja traktorinn . „Eins og Grétar segir þá var Axel ekki með bílpróf og lærði aldrei að keyra dráttarvél þannig að hann fékk okkur til að skutla sér milli bæja.“

Að sögn Karls hafði Axel bóndi ekki mikla þekkingu á dráttarvélum. „Þegar Axel kom til kaupfélagsstjórans og vildi kaupa sér dráttarvél var hann spurður hvers konar dráttarvél hann vildi. Ég vil fá þá dýrustu, svaraði Axel þá,“ rifjar Karl upp.

Báðir fara þeir Grétar og Karl nú um á sams konar traktorum og Axel bóndi á Valdarási keypti fyrir tæpum sextíu árum og varð þess valdandi að þeirra sögn að þeir fengu ólæknandi dráttarvélabakteríu. Um er að ræða Massey Ferguson 35X og eru báðir gripirnir einkar glæsilegir.

Sem fyrr segir eru Grétar og Karl ekki aðeins að hristast um Vestfjarðakjálkann sér til skemmtunar og heilsubótar heldur eru þeir líka að safna áheitum og safna fé fyrir Barnaheill og er það sérstaklega fyrir fornvarnarverkefni sem varðar einelti og heitir Vinátta. Hægt er að kynna sér málið á heimasíðu Barnaheilla.