Heilsugæslur víða um land hafa verið án skyndiprófa fyrir streptókokka í nokkra daga, en að sögn Óskars Reykdalssonar, forstjóra Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, hefur slíkt ekki gerst áður.
„Það er meira um streptókokkasýkingar núna, en ég man þó ekki eftir því að prófin hafi klárast áður. Það hefur verið erfitt að fá þau og þetta voru nokkrir dagar þar sem var ekki hægt að taka sýni. Við erum vön að bjarga okkur og höfum stundum lent í því að meðhöndla sjúklinga á klíník þegar við getum ekki tekið próf,“ segir Óskar.
Hann segist þó ekki hafa of miklar áhyggjur af stöðunni þar sem von sé á sendingu af skyndiprófum.
„Þetta frestaðist því miður eitthvað, en ég á von á því að þau fari í dreifingu á heilsugæslurnar, vonandi í dag,“ segir hann.
Óskar segir mikið álag á heilsugæslur þessa dagana þar sem ýmsar veirur og pestir herji nú á landsmenn.
„Þetta eru aðallega öndunarfærasýkingar af ýmsum tegundum og það er auðvitað alltaf eitthvað um Covid, en mest eru þetta venjulegar kvefpestir og inflúensa. Venjulega er inflúensa í hámarki á þessum tíma og getur verið alveg fram í mars. Það er mjög mikið álag hjá okkur og meira um bráðaerindi sem við verðum að sinna, sem bitnar auðvitað aðeins á annarri þjónustu,“ segir Óskar.
Þá hafi staðan á Covid sýkingum breyst frá því sem áður var.
„Veiran hefur veikst og veikindin eru miklu minni en fyrst. Þetta er þá mikið fólk sem er þegar bólusett eða jafnvel að fá veiruna í annað sinn,“ segir hann.
Að sögn Óskars hefur borið mikið á því að sjúklingar mæti í endurkomur á heilsugæsluna vegna veikinda sem teygi yfir lengri tíma en góðu hófi gegni. Mikilvægt sé að vera á varðbergi.
„Það er svolítið mikið um að fólk verði lengi veikt, með hita í eina til tvær vikur og jafnvel hitatoppa, sem kemur til okkar aftur og aftur. Þá erum við að tala um þessi týpísku flensueinkenni sem oftast er ekki hægt að meðhöndla. En þegar svona sýkingar dragast á langinn þá borgar sig að rannsaka og skoða sjúklinginn betur,“ segir Óskar.
Samkvæmt nýrri samantekt embætti landlæknis greindist svipaður fjöldi með inflúensu í nýliðinni viku samanborið við vikuna þar á undan, eða alls fjörutíu manns. Þá var fjöldi klínískra greininga á inflúensulíkum einkennum sambærileg milli vikna. Hlutfallslega flestir sem eru að greinast eru í aldurshópunum 0 til 4 ára og 65 ára og eldri, líkt og undanfarin inflúensutímabil.

Óvenjumargir eru að greinast með skarlatssótt, samanborið við fyrri ár, en á árinu 2022 fengu 523 einstaklingar þessa greiningu en árin á undan voru það að meðaltali rúmlega 300 einstaklingar.
Covid-19 greiningum fækkar, en hlutfall jákvæðra sýna helst enn hátt. Þá voru talsvert færri lagðir inn með og vegna Covid í síðustu viku samanborið við þar síðustu viku.
Fjöldi sem greindist með RSV á veirufræðideild Landspítala var aðeins lægri í síðustu viku, samanborið við vikuna þar á undan. Þá voru innlagnir af völdum RSV og inflúensu svipað margar síðustu tvær vikurnar.
