Mikið álag hefur verið á vefnum heilsuvera.is og Heilsugæslunni höfuðborgarsvæðisins frá því að kórónaveirufaraldurinn skall á hér á landi í febrúar á síðasta ári. Símtölum í miðlægt símanúmer heilsugæslunnar hefur fjölgað úr 40-50 símtölum í dag í um eitt þúsund.

„Þetta er mikið af sömu spurningunum sem tengjast oft bólusetningum,“ segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, og bætir við að starfsfólki í símsvörun hafi verið fjölgað. „Auðvitað var maður að vona að þetta myndi minnka en það bendir allt til þess að þetta verði allavega einhverja mánuði í viðbót,“ segir Óskar.

Hann segir að upphaflega hafi aðeins verið einn starfsmaður við svör í miðlægu númeri heilsugæslunnar, tveimur til þremur hafi nú verið bætt við.

4.229 sýni í gær

Starfsfólk Heilsugæslunnar sér einnig um bæði sýnatöku vegna Covid-19 og bólusetningar. Í gær voru tekin 4.229 sýni í húsnæði Heilsugæslunnar á Suðurlandsbraut. Þar af voru 720 svokölluð hraðpróf. Óskar segir að fjöldi sýna sem tekin voru í gær sé yfir meðallagi en að vel hafi tekist til.

„Það var svona tíu mínútna töf að meðaltali annars var fólk bara að komast inn á réttum tíma,“ segir Óskar. „Starfsfólk tók styttri hádegismat og styttri kaffitíma í dag (í gær) og var hér á fullu í allan dag því að þetta var meira álag en venjulega,“ bætir hann við en kalla hefur þurft starfsfólk inn úr sumarfríum til að mæta álaginu sem fylgir auknum fjölda tekinna sýna.

„Við höfum verið í vandræðum með að fá inn fólk en þetta gengur samt upp. Það er mikið um að vera hér og stanslaust álag allan daginn svo þetta er strembin vinna,“ segir Óskar.

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Fréttablaðið/Anton Brink

Býst við mörgum í sýnatöku næstu

Í gær voru 745 einstaklingar í einangrun með Covid-19 hér á landi og 2.030 voru í sóttkví. Sólarhringinn á undan greindust 123 innanlandssmit. Í dag má því gera ráð fyrir því að fjölgi í sóttkví og að fjöldi fólks fari í skimun.

Óskar segist gera ráð fyrir því að svipaður fjöldi og í gær komi í skimun á Suðurlandsbraut næstu vikuna, jafnvel fleiri. „Miðað við hvernig þetta hefur verið síðasta eina og hálfa árið þá geri ég ráð fyrir því.“

Allir sem finna fyrir einkennum Covid-19, svo sem þurrum hósta, hita, beinverkjum eða niðurgangi, eru hvattir til þess að fara í sýnatöku. Hana má bóka á Mínum síðum á Heilsveru. Einstaklingar sem fara í sýnatöku eru í einangrun frá því að sýnataka er pöntuð og þar til að niðurstöður liggja fyrir.