Kærunefnd útboðsmála gaf í dag út úrskurðþar sem komist var að þeirri niðurstöðu að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hafi ekki brotið lög með því að kaupa hraðpróf vegna Covid-19 án útboðs.

Heilsugæslan hafði keypt hraðpróf frá IsM. ehf. og Medor ehf. upp á annars vegar 245.080.000 kr. og hins vegar 134.720.000 kr. Félag atvinnurekenda hafði kært þessi kaup á þeim grundvelli að ekki hefði farið fram útboð í samræmi við lög um opinber innkaup. FA fór fram á að kaupsamningarnir yrðu úrskurðaðir óvirkir og að Heilsugæslunni yrði gert að greiða stjórnvaldssekt.

Í úrskurði kærunefndarinnar var fallist á þá röksemd Heilsugæslunnar að nauðsyn hefði kallað á að lagerstaða hraðprófa væri trygg. Heilsugæslan hefði auglýst gagnvirkt innkaupaferli í september 2021 en því hafi verið ólokið í nóvember og því talið útilokað að nota það til innkaupa á hraðprófum í nóvember sama árs eða í janúar 2022.

Þar með taldi kærunefndin að Heilsugæslunni hafi verið heimilt að gera samningana án útboðs í samræmi við undantekningarákvæði í lögum um opinber innkaup. Í undantekningarákvæðinu kemur fram að samningskaup án opinberrar birtingar útboðsauglýsingar séu heimil þegar innkaup eru „algerlega nauðsynleg vegna aðkallandi neyðarástands sem stafar af ófyrirsjáanlegum atburðum og ekki er unnt að standa við fresti i almennu útboði, lokuðu útboði eða samkeppnisútboði.“

Kröfum Félags atvinnurekenda var því hafnað og málskostnaður felldur niður.