Gagngerar endurbætur standa nú yfir á öllum mannvirkjum í Ásgarði í Kerlingarfjöllum og er stefnt að því að opna svæðið fyrir ferðamönnum á ný á vormánuðum.

„Við erum búin að vera að undirbúa nýja starfsemi í á þriðja ár,“ segir Magnús Orri Schram, framkvæmdastjóri Kerlingarfjalla, og lýsir umskiptum í ferðaþjónustunni á svæðinu.

„Við erum að taka allt svæðið í gegn,“ segir hann. „Meðal annars erum við að byggja nýtt og rúmgott veitingahús á grunni þess gamla sem verður glæsilegt í alla staði – og bæta við vönduðum hótelrýmum í nýrri álmu, ásamt því að bæta allan húsakost sem fyrir er, svo sem gömlu A-húsin sem hafa verið einkennandi fyrir svæðið,“ heldur hann áfram og bætir því við að heitar laugar muni standa gestum Kerlingarfjalla til boða á haustmánuðum, en þær verða staðsettar inn af veitingaskálanum.

Undirbúningur hefur staðið í þrjú ár.

„Þessi böð verða sérstök að því leyti að þau standa í bratta,“ segir Magnús Orri, en nú sé verið að vinna að því að afla þeim nægilegs vatns.

Þá verða tjaldsvæðin bætt að miklum mun, upplýsingaskiltum fjölgað, gönguleiðir merktar og nýjar stikaðar, „og í vor kemur út ný bók um allar gömlu gönguleiðirnar á svæðinu,“ segir Magnús Orri og bendir á að allt verkið sé unnið í góðu samstarfi við Umhverfisstofnun.

„Aðalatriðið er þetta: Allir geta komið í Kerlingarfjöll, tjaldað þar, gist í skála eða í góðum herbergjum,“ segir Magnús Orri, en pláss verður fyrir hundrað manns í gistingu á staðnum, fyrir utan tjaldstæðin.

Allt er unnið góðu samstarfi við Umhverfisstofnun.

Hann segir ferðaþjónustuna innanlands hafa kallað eftir svona þjónustu um árabil. „Tíðindin í þessu eru þau að hér er komin til sögunnar alveg ný og áður óþekkt vara í íslenskri ferðaþjónustu. Í fyrsta sinn er verið að bjóða upp á vandaða heilsársþjónustu inni á miðju hálendi. Nýja aðstaðan gerir það að verkum að fólk getur búið við góðar aðstæður og einstaka upplifun í 700 metra hæð á einum óviðjafnanlegasta stað íslenskrar náttúru,“ segir Magnús Orri Schram.

Magnús Orri Schram