Kaupmáttur hefur aukist og heildartekjur allra tekjuhópa hafa hækkað á síðustu árum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Þá kemur einnig fram að allir tekjuhópar greiða minni tekjuskatt en áður, utan hæsta tekjuhópsins.

Þá kemur einnig fram í greiningu ráðuneytisins að 83 prósent af nettótekjum hins opinbera koma frá tekjuhærri helmingi skattgreiðenda. Greiningin er byggð á álagningu opinberra gjalda út frá skattframtölum.

„Undanfarinn áratugur hefur einkennst af mikilli kaupmáttaraukningu þar sem tekjur hafa hækkað á sama tíma og verðbólga hefur haldist tiltölulega lág,“ segir í tilkynningunni. Þá segir einnig að meðalhækkun heildartekna frá 2010 nemur 38 prósent á verðlagi ársins 2021.

Þá segir ráðuneytið einnig að skattbyrði lág- og millitekjufólks hafi lækkað og að það sé í samræmi við stefnu stjórnvalda um það málefni. „Þær breytingar eiga stóran þátt í því að tekjuskattbyrði hefur lækkað frá 2019,“ segir í tilkynningunni. Enga breytingu má sjá hjá lægsta tekjuhópnum, ráðuneytið segir þetta skýrast af því að þær tekjur eru undir skattleysismörkum.

Heildartekjur einstaklinga árið 2021 voru 2.256 milljarðar króna. 523 milljarðar króna voru teknar af þeim tekjum í formi tekjuskatts, útsvars og fjármagnstekjuskatts. Tæplega 30 prósent af heildartekjum árið 2021 lentu í efsta tekjuhópnum. Neðstu fimm tekjuhóparnir borga samtals 17 prósent af heildarskatttekjum.