Sá þeirra sem tekur mest til sín varðar heilbrigðis- og velferðarmál sem gefur allri umræðu um hann mikið vægi. Mikilvægt er að vel takist til því skekkjur í tugmilljarða rekstri geta verði ansi sársaukafullar. Til dæmis mætti reka alla utanríkisþjónustu landsins nokkrum sinnum einungis fyrir það fé sem rennur til Landspítalans og þannig mætti lengi telja. Það hefur blasað við málaflokknum mikill vandi sem felst í mönnun og framtíð heilbrigðisþjónustu á Íslandi.

Breytingar í rekstrarumhverfi, kostnaðarauki, launabreytingar og ýmislegt fleira vegur þungt enda eru undirstöður í rekstrinum fólkið sjálft og launaliður stærsti einstaki kostnaðarliðurinn. Ekki má gleyma því að okkur vantar líka tæki, tól og húsnæði. Við höfum þrátt fyrir þetta ekki efni á því sem þjóð að gera ekki róttækar breytingar á kerfinu til lengri tíma litið, borga laun sem eru samkeppnishæf, gera þjónustuna skilvirkari, nýta tæknilausnir og síðast en ekki síst vinna öflugra starf í forvörnum en þegar er gert. Við eyðum því miður skammarlega litlum hluta útgjalda okkar í það að verjast sjúkdómum og ýmsum heilsufarsvanda. Þá felst mikil áskorun í öldrun þjóðarinnar og eigum við að reyna að horfa á það sem tækifæri til að breyta og bæta þjónustu þá sem við höfum hingað til lagt upp með. Augljóst er að aukin þjónusta í heimahúsi og sömuleiðis það að viðhalda getu einstaklinga verður meginmarkmið, sem og að nýta þann hóp og þá miklu reynslu sem hann hefur í samfélaginu enn frekar en nú er gert.

Það er ljóst að mönnun heilbrigðisþjónustunnar er stærsta einstaka vandamálið hérlendis og okkur sárvantar lækna með þjálfun í heimilislækningum og almennum lyflækningum sem eiga að vera í framvarðarsveit heilbrigðiskerfisins. Teymisvinna með hjúkrunarfræðingum og öðrum fagstéttum er lykilatriði í allri þjónustu og það sem við eigum að horfa til þegar við skipuleggjum heilbrigðiskerfi framtíðarinnar. Við þurfum að taka sársaukafullar ákvarðanir um það hvar verði veitt þjónusta læknis á landsbyggðinni og hvernig. Eigum við að innleiða aftur héraðsskyldu eða setja ábyrgð ákveðinna svæða í hendur stærri eininga sem geta sent mannskap í styttri tíma í senn. Við eigum að nýta okkur í því efni tækniþróunina og fjarskipti auk þess sem hjúkrunarfræðingar og bráðaliðar myndu sinna frum- sem og bráðaþjónustu á þeim stöðum með stuðningi læknis í gegnum fjarskiptatækni enn frekar en nú er gert. Við höfum nú þegar sett regluverk um fjarheilbrigðisþjónustu og skilgreint ferla og er von til þess að við fáum talsverða breidd í slíkri þjónustu í framtíðinni.

Miðlæg þjónusta lækna getur sinnt miklu af því sem fram fer í dag á stofu í gegnum tölvu og myndsíma, svipuð módel eru þegar í notkun víða og nægir að nefna Ástralíu og Kanada sem eru mjög dreifbýl ríki. Gervigreind mun koma mjög sterkt inn í tengslum við greiningu og ákvörðunartöku. Við verðum að vera í framlínu með nýtingu hennar og fjárfesta þar. Eitt miðlægt vaktakerfi fyrir allt landið varðandi fyrirspurnir sjúklinga utan hefðbundins vinnutíma hefur virkað vel, en það má enn bæta, upplýsingagjöf og fræðslu þarf einnig að bæta og nýta fleiri leiðir en nú og á ég þar sérstaklega við samfélagsmiðla sem eru vannýttir í dag til forvarna. Rafrænar tímabókanir þarf að innleiða á landsvísu hjá öllum heilbrigðisstéttum. Öflug netgátt fyrir tölvufæra er til staðar í Heilsuveru en þarf að kynna enn frekar. Þá eru of margir sjúklinganna ekki enn komnir með rafræn skilríki sem þeir geta notað í samskiptum sínum við heilbrigðiskerfið um tímapantanir, endurnýjun lyfseðla og fyrirspurnir, en við erum á réttri leið. Sameiginleg lyfjakaup, tækjakaup og ýmis stoðþjónusta er skynsamleg í samfloti með öðrum þjóðum, en tækifærin eru býsna mörg á þeim vettvangi.

Nauðsynlegt er að horfa til smæðar landsins og skilgreina og kostnaðargreina hvaða sérfræðilæknaþjónustu við veitum hér og hvað við eigum að sækja til útlanda, þar koma til erfiðar ákvarðanir m.t.t. tækjakaupa og aðbúnaðar, en hann verður að vera fyrsta flokks fyrir þá sem munu starfa hér. Það er ljóst að umfang þjónustunnar á Íslandi er líklega ekki nægjanlegt til að viðhalda sérþekkingu ýmissa sérgreina læknisfræðinnar og það þarf einfaldlega að ræða það opinskátt og leggja í fjárfestingu varðandi hana til framtíðar. Ein leið til að viðhalda þekkingunni er að selja öðrum hana og gera Ísland samkeppnishæft í samkeppninni um lækna ekki síður en sjúklinga, samanber Evróputilskipun og fleiri tækifæri í því efni. Fjölbreytt rekstrarform eiga að vera regla en ekki undantekning og skapa frjóan jarðveg fyrir heilbrigðisstarfsfólk. Þá eigum við að nota landið sem markað fyrir heilbrigðistæknigeirann og byggja hann upp hér enn frekar en nú er og sá þeim fræjum að hér sé auðvelt að fara í gegnum tilraunaverkefni í heilbrigðisþjónustu og í tæknigeira. Ekki má gleyma því að íslenskt heilbrigðiskerfi og starfsfólk er með því besta sem gerist í heiminum, en það er ekki hægt að ætlast til þess að slíkt verði áfram nema með talsverðum breytingum frá því sem nú er. Fjármuni þarf sannarlega til og þá þarf að nýta vel, en það þarf fyrst og fremst að hlúa að mannauðnum sem skapar kerfið.