Alls skráði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar 29 frávik, brot á ákvæðum starfsleyfis eða laga og reglugerða, þegar eftirlitið heimsótti geðsvið Landspítala og meinafræðideild 19. nóvember síðastliðinn. Þetta kemur fram í eftirlitsskýrslum sem heilbrigðiseftirlitið gerði í kjölfar heimsóknanna.

Geðsviðið fær aðeins tvo í heildareinkunn af fimm mögulegum og aðkallandi úrbóta. Auk brotanna 13 voru settar fram 18 ábendingar í skýrslunni, um það sem betur mætti fara með tilliti til hollustuhátta.

Sömu einkunn fær meinafræðideild Landspítalans, tvo af fimm mögulegum. Þar er, líkt og á geðsviði, aðkallandi úrbóta þörf. Í skýrslu heilbrigðiseftirlitsins eftir heimsóknina á Hringbraut, kemur eru 16 frávik frá ákvæðum laga, regluegerða og starfsleyfisskilyrða. Í eftirlitsskýrslu eru enn fremur settar fram 29 ábendingar um það sem betur má fara eða þarf að lagfæra.

Fréttablaðið sendi Landspítalanum fyrirspurn um málið 19. febrúar. Þar var spurt hvaða augum stjórnendur spítalans líta þessar niðurstöður og hvort þeir telji ásættanlegt að frávikin séu svona mörg. Spurt var hvað skýrði þessar niðurstöður og hvort gerðar hafi verið úrbætur í samræmi við aðfinnslur heilbrigðiseftirlitsins. Loks var spurt hversu mörg atriði hafa verið lagfærð, annars vegar á Hringbraut og hins vegar á Skólavörðustíg. Blaðið fékk skilaboð 25. febrúar um að málið væri í vinnslu og aftur 27. febrúar. Svar hefur hins vegar enn ekki borist.

Á geðsviði eru dyrakarmar og gólfdúkur hússins illa farnir og þarfnast viðhalds, samkvæmt skýrslu heilbrigðiseftirlitsins. Raki er á milli glerja og ekki hægt að opna glugga í rými 401. Engin fljótandi handsápa var á salerni í öðru rými og frystir fyrir matvæli skjólstæðinga var ekki nógu kaldur. Ekki reyndist nægt skilrúm á milli klósetta karla og kvenna. Lausar flísar í gólfi og vegg voru á einu salerninu. Brotið var úr vegg á einum stað og þar virtist leka inn, svo eitthvað sé upp talið.

Í heimsókn eftirlitsins á meinafræðideild komu fram 16 frávik, eða brot á ákvæðum starfsleyfis, laga eða reglugerða. Á meðal frávika má nefna að kassar með efnaúrgangi til förgunar stóðu við útidyr, sýni í formalíni voru geymd í ólæstum skáp og formalín, etanól og maurasýra voru geymd í ómerktum brúsum. Í ólæstri og ómerktri geymslu fundust meðal annars xylene, spritt og formalín. Reglur kveða á um að eiturefni og varnarefni skuli geymd í læstum hirslum eða rými. Nánast öll frávikin voru af svipuðum meiði; efni voru geymd í ómerktum umbúðum eða ólæstum hirslum án fallvarna.