Sjö­tíu og fimm hjúkrunar­fræðingar, eða 5,9 prósent svar­enda í nýrri könnun Fé­lags ís­lenskra hjúkrunar­fræðinga, segja ógn við öryggi sitt á vinnu­stað hafa vakið upp hjá þeim hug­mynd um að segja upp starfi sínu.

Guð­björg Páls­dóttir, for­maður fé­lagsins, segir að ekki hafi verið sér­stak­lega spurt um það í könnuninni hvað það sé sem ógni öryggi hjúkrunar­fræðinganna en að hún geti nefnt nokkur dæmi.

„Það getur verið þannig að okkur stafi ógn af þeim sem við erum að sinna og það getur líka verið ógn í því að hafa ekki þau tæki, tól og búnað sem við þurfum til að sinna starfi okkar,“ segir Guð­björg.

„En annar stór þáttur sem gleymist í þessu er ógnin í því að hægt sé að sækja heil­brigðis­starfs­fólk til saka vegna kerfis­bundinna villna innan kerfisins,“ bætir Guð­björg við.

Þar vísar hún meðal annars í mál frá árinu 2014 þegar hjúkrunar­fræðingur var sóttur til saka fyrir mann­dráp af gá­leysi. Hún var sýknuð en málið hafði í kjö­farið mikil á­hrif á starf hjúkrunar­fræðinga.

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
Mynd/aðsend

„Ef þú ert að vinna á undir­mönnuðum vinnu­stað, þar sem mönnunin er ekki í sam­ræmi við vinnu­á­lagið og starfs­að­stæður eru ó­full­nægjandi, þá ertu að setja sjálfan þig og þitt starfs­leyfi í hættu,“ segir Guð­björg.

Willum Þór Þórs­son heil­brigðis­ráð­herra hefur hafið vinnu við laga­breytingar sem kveða á um að af­nema refsi­næmi vegna mis­taka heil­brigðis­starfs­fólks og segir Guð­björg nauð­syn­legt að af breytingunum verði.

Undir orð hennar tekur Sigur­björg Sigur­geirs­dóttir, prófessor í stjórn­sýslu­fræði við Há­skóla Ís­lands, en hún hefur rann­sakað refsi­væðingu mann­legra mis­taka í heil­brigðis­þjónustu og á­hrif hennar á heil­brigðis­starfs­fólk.

„Rann­sóknir mínar styðja ein­dregið við það að þessu þarf af breyta,“ segir Sigur­björg.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, dósent við Háskóla Íslands.
Fréttablaðið/JónPállVilhelmsson

Hún segir hjúkrunar­fræðinga mun með­vitaðri um bæði þá per­sónu­legu og fag­legu á­hættu sem fylgi starfi þeirra eftir mál hjúkrunar­fræðingsins árið 2014.

„Rann­sóknir sýna að í kjöl­far svona mála veigrar fólk sér við að vinna þar sem á­hættan er mikil. Svo sem á bráð­deild eða gjör­gæslu­deild vegna þess að að þar hefur fólk ekki stjórn á að­stæðum og verður að taka þeim verk­efnum sem að því er beint og leysa þau,“ segir hún.

Sigur­björg segir að í vinnu­að­stæðum þar sem undir­mönnun sé mikil myndist á­kveðinn víta­hringur. „Það eru fáir á vakt og því meiri hætta á að eitt­hvað gerist, hjúkrunar­fræðingar verða því varari um sig og taka ekki tvö­faldar vaktir sem ýtir aftur undir undir­mönnun,“ segir hún.

„Mönnunin hefur alltaf reitt sig á það að hjúkrunar­fræðingar taki tvö­faldar vaktir en núna kippa þeir að sér hendinni og vilja ekki fara út í að­stæðurnar sem konan sem var kærð var í,“ bætir hún við.

Sigur­björg segir hjúkrunar­fræðinga eiga auð­velt með að setja sig í spor konunnar sem kærð var, þeir þekki að­stæðurnar sem hún var í en það geri al­menningur síður. „Þess vegna er hann ref­siglaðari.“

Þá segir Sigur­björg rann­sókn sína sýna að hjúkrunar­fræðingar séu flestir sam­mála um að af­nema eigi refsi­næmi en þó ekki í til­fellum þar sem um á­setning sé að ræða.

„Fari fram rann­sókn sem bendi til á­setnings, þá ætti að kæra og ekki að hylma yfir það, en það þarf að gera greinar­mun á því hvers konar at­vik á sér stað,“ segir hún. „Það vill enginn vinna í að­stæðum þar sem þú getur lent í svona.“