Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði á fundi með læknaráði í gær að það væri mikil áskorun fyrir hana að standa með Landspítalanum þegar ályktanir um slæma stöðu stofnunarinnar kæmu út á færibandi. Hún lýsti yfir vonbrigðum með orðanotkun lækna eftir að vísað var í ástandið á bráðamóttökunni sem „neyðarástandi“ og „skelfingarflækju“.

„Okkur langar mikið til að heyra hvað ráðherra leggur til, bæði af fjármagni og góðum ráðum, til að greiða úr ‏þessari skelfingarflækju sem blasir við hér á hverjum degi og hefur blasið við liðið ár,“ var spurt úr sal og lýsti Svandís yfir vonbrigðum um að umræður um neyðarástand væru á lofti.

„Skelfingarflækja var orðið sem hann notaði. Það er orðið býsna langur listi af orðum og hugtökum sem hafa verið notuð um ástandið á bráðamóttöku,“ sagði Svandís og biðlaði til læknaráðs að tala ekki niður spítalann.

Með því að lýsa Landspítalanum sem skelfingarvettvangi væru læknarnir að fæla frá ungt fólk sem gæti tekið þátt í uppbyggingu og framþróun heilbrigðisþjónustunnar.

Þá voru ekki margir sem vissu um hvað málið snerist en allir voru með lausnir.

„Orð eru til alls fyrst og þess vegna hef ég sagt að ég myndi vilja eiga fleiri hauka í horni þar sem eru læknar vegna þess að læknar eru best menntaða stéttin á Íslandi. Leiðtogar í sínu fagi. Leiðtogar í því að byggja upp heilbrigðisþjónustu til lengri tíma og ég myndi vilja sjá að læknar tækju það hlutverk alvarlega og horfðu til lengri framtíðar í því að vera með því í að byggja upp þjónustu; að vera með í því að tala um það sem eru áskoranir og hvernig við getum snúið bökum saman í að bæta þjónustu,“ sagði Svandís á fundinum.

Margir viti ekki um hvað málið snúist

Svandís vitnaði í þátt Silfur Egils sem hún hafði horft á kvöldið áður:

„Manni gremst nú iðulega þegar verið að tala um mál sem fáir í salnum hafa vit á, eins og var í gær þegar verið var að ræða heilbrigðismál. Þá voru ekki margir sem vissu um hvað málið snerist en allir voru með lausnir. „Þetta veit maður nú bara af því að þetta lærir maður í verkefnastjórn 101“ sagði einhver.

Þáttastjórnandinn talaði ítrekað um það að íslenskt heilbrigðiskerfi væri komið á ystu nöf. Ég var að tala við tvær þingkonur á Sprengisandi í gær og þær töluðu um það að íslenskt heilbrigðiskerfi væri gjaldþrota. Að það væri ónýtt. Ég vil bara skilja það hér eftir að það hvernig talað er, að í því felst líka ábyrgð,“ sagði Svandís.

Læknar sýni leiðtogahæfni í stað þess að tala niður spítalann

„Ábyrgð læknaráðs er líka mikil í að vera leiðtogar í því að þróa heilbrigðisþjónustuna inn í framtíðina. Ég vil biðla til læknaráðs að leggja fleiri lóð á þær vogaskálar en færri á þær að tala spítalann niður eins og oft er gert,“ sagði Svandís að lokum.

Nefndarmaður í Læknaráði svaraði þá og benti Svandísi á að hún gæti alltaf leitað ráða hjá þeim 400 læknum sem starfi hjá Landspítalanum en það væri gott ef einstaka sinnum væri hlustað á þá í raun og veru.

„Ég get ekkert gert að því að það sé svekkjandi að heyra að ástandið sé slæmt en það er þannig,“ sagði þá sami nefndarmaður.

Svandís sagði síðar á fundinum að hún hafi ekki ætla að „taka af sér hanskana“ en mikilvægt væri að hafa opin og hreinskipt samskipti milli ráðherra og læknaráðs.