Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur nú ákveðið að framlengja samkomubannið sem átti á ljúka þann 13. apríl til 4. maí en þetta kemur fram í tilkynningu um málið. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá því á dögunum að hann hafi lagt það til að samkomubannið verði framlengt og samþykkti Svandís þá tillögu.

„Nú skiptir öllu máli að við höldum áfram að standa saman sem einn maður, fylgja fyrirmælum okkar besta fagfólks og koma þannig í veg fyrir að álag á heilbrigðiskerfið fari yfir þolmörkin,“ segir hún en það veldur áhyggjum hversu hratt fjölda fólks á gjörgæslu hefur fjölgað.

Ellefu manns eru nú á gjörgæslu á Landspítala og einn á Akureyri. Átta eru í öndunarvél á Landspítala og einn á Akureyri. „Ljóst er að frekari aukning á smiti í samfélaginu með fjölgun alvarlega veikra, getur skapað mikinn vanda innan heilbrigðiskerfisins og torveldað því að gegna hlutverki sínu eins og þörf krefur,“ segir í tilkynningunni.

Banninu aflétt í áföngum og veittar undanþágur haldast

Sam­komu­bann hefur verið í gildi frá 13. mars og átti það upp­haf­lega að gilda í mánuð, eða til 13. apríl. Á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna á miðvikudag sagðist Þór­ólfur hafa lagt til á­fram­haldandi að­gerðir til að hefta út­breiðslu Co­vid-19 í ljósi stöðunnar hér á landi.

Engar breytingar verða á gildandi takmörkunum á samkomum og skólahaldi aðrar en framlengdur gildistími til 4. maí. Á tímabilinu verður undirbúin áætlun um hvernig best megi standa að því að aflétta gildandi takmörkunum í áföngum. Stefnt er að því að kynna þau áform fyrir lok þessa mánaðar.

Undanþágur sem veittar hafa verið frá takmörkunum á samkomum og skólahaldi munu halda gildi sínu sem nemur framlengingu aðgerða, þ.e. til 13. apríl næstkomandi. Áréttað er að undanþágur eru því aðeins veittar að mikið sé í húfi, þ.e. í þágu allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða til verndar lífi eða heilsu.