Heilbrigðiseftirlitið setti upp hljóðmæli á horni Bankastrætis og Laugavegs um síðastliðna helgi vegna fjölda hávaðakvartana sem hafa borist frá íbúum á svæðinu. Lætin frá næturlífinu hafa lengi verið til umræðu, en Íbúasamtök Miðborgar héldu í síðustu viku málþing vegna deilna á milli íbúa og skemmtistaða.

„Síðustu helgi var Iceland Air­waves í gangi og þá var ákveðið meðal annars að setja upp mæli á þessu svæði. Út af fjölda kvartana var ákveðið að setja upp mæli á þessu horni, en þetta er liður í því að bregðast við kvörtunum og sinna rannsóknarskyldu okkar,“ segir Helgi Guðjónsson, verkefnastjóri hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.

Helgi segir að með mælinum sé verið að fylgjast með hvað hljóðstigið sé hátt á svæðinu, en einnig var settur upp mælir inni á skemmtistaðnum Sólon. „Þetta er gott tól fyrir okkur í vinnslu kvartana og til að fylgjast með því hvort það sé verið að fara eftir settum lögum og reglum. Um hávaða frá fyrirtækjum gildir reglugerð um hávaða, og samkvæmt henni má á samkomum ekki vera hærra en 95 desíbel,“ segir hann.

Helgi segir að ef staður gerist sekur um brot geti heilbrigðiseftirlitið gripið til þvingunaraðgerða.

„Þegar við getum staðfest það að staður sé að spila of háa tónlist, þá förum við fram á úrbætur. Ef engar úrbætur eru gerðar getum við takmarkað starfsemina og meðal þeirra úrræða sem við höfum beitt er að takmarka hljóðstig á hljóðkerfi vissra staða og í einhverjum tilvikum höfum við takmarkað opnunartíma skemmtistaðarins,“ segir Helgi.