Kæru á hendur Heil­brigðis­eftir­liti Reykja­víkur fyrir að leyfa Vöku hf. að starfa án starfs­leyfis hefur verið vísað frá úr­skurðar­nefnd um­hverfis- og auð­linda­mála vegna þess að heil­brigðis­eftir­litið gaf út starfs­leyfi áður en úr­skurðar­nefndin lauk málinu.

Íbúi á Klepps­vegi, skammt frá starfs­stöð Vöku, lagði fram kæru í nóvember í fyrra. Í byrjun janúar gerði hann svo kröfu um að fram­kvæmdir á á Vöku­lóðinni yrðu stöðvaðar á meðan úr­skurðar­nefnd um­hverfis- og auð­linda­mála fjallaði um málið.
Vaka sótti í lok októ­ber 2019 um starfs­leyfi til loka árs 2021 fyrir bílaparta­sölu, bif­reiða- og véla­verk­stæði, hjól­barða­verk­stæði og vegna endur­vinnslu bíla.

„Í upp­hafi árs 2020 flutti Vaka hf. starf­semi sína að Héðins­götu 2 og fljót­lega eftir það fóru að berast kvartanir frá í­búum í ná­grenninu vegna ó­næðis og á­hyggna um mengun. Um­kvörtunar­efni þeirra var stað­fest í eftir­lits­ferðum heil­brigðis­eftir­litsins,“ segir um mála­vexti í um­fjöllun úr­skurðar­nefndarinnar.

Þá segir enn­fremur að starf­semin á Vöku­lóðinni hafi verið um­fangs­meiri en sótt var um starfs­leyfi fyrir og komin fór út fyrir lóðar­mörkin. Í tölvu­pósti heil­brigðis­full­trúa í febrúar 2020 til eins þess sem kvartaði undan á­standinu hafi verið út­skýrt að sam­kvæmt stjórn­sýslu­venju væri Vöku leyft að hefja starf­semi á meðan verið væri að ljúka starfs­leyfis­um­sókn. Heil­brigðis­eftir­litið gaf síðan út starfs­leyfis fyrir Vöku 2. febrúar síðast­liðinn.

Málsmeðferðin aðfinnsluverð

Við með­ferð kæru­málsins kvaðst heil­brigðis­eftir­litið hafa beitt stjórn­sýslu­venju. „Um­rædd venja hafi orðið til í ljósi meðal­hófs þar sem mjög í­þyngjandi sé fyrir fyrir­tæki að leggja niður starf­semi sína á meðan starfs­leyfis­um­sókn sé í ferli. Þar sem mjög við­tekin venja hafi verið til staðar árum saman telji heil­brigðis­eftir­litið að venja þessi sé bindandi fyrir sig þar sem gæta verði að jafn­ræðis­reglu stjórn­sýslu­réttarins,“ segir í um­fjöllun úr­skurðar­nefndarinnar.

„Í svörum heil­brigðis­eftir­litsins er ekki að finna frekari upp­lýsingar um til­vist meintrar stjórn­sýslu­venju, svo sem til­vísun til sam­bæri­legra mála sem fengið hafi sömu af­greiðslu, hvort eftir­litið telji um stað­bundna venju að ræða, sem eigi einungis við um fyrir­tæki sem starfi innan svæðis Heil­brigðis­eftir­lits Reykja­víkur, eða hvort hún eigi við um landið allt,“ bendir úr­skurðar­nefndin á.

„Stjórn­sýslu­venja getur ekki vikið til hliðar skýrum laga­fyrir­mælum og þær at­huga­semdir sem að framan greinir benda ein­dregið til þess að lög­festing undan­þágu­heimildar ráð­herra til handa hafi bein­línis verið gerð í þeim til­gangi að skapa festu og gæta sam­ræmis með því að hafa þá heimild á einni hendi. Hafði Heil­brigðis­eftir­lit Reykja­víkur því ekki heimild til að leyfa mengandi starf­semi án þess að fyrir lægi starfs­leyfi eða undan­þága ráð­herra frá kröfu um starfs­leyfi,“ segir úr­skurðar­nefndin.

Þennan ann­marka segir nefndin ó­tví­rætt á­stæðu til að ó­gilda á­kvörðunina um að heimila að Vöku að starfa án starfs­leyfis. Hins vegar væri nú búið að gefa út starfs­leyfi og því ekki um annað að ræða en að vísa kærunni frá þótt máls­með­ferðin væri „að­finnslu­verð“