Þorvaldur S. Helgason
thorvaldur@frettabladid.is
Laugardagur 17. september 2022
13.00 GMT

Elmar Gil­berts­son og Salka Sól Ey­feld fara með aðal­hlut­verkin í söng­leiknum Sem á himni sem var frum­sýndur í Þjóð­leik­húsinu í gær. Sem á himni er byggður á sænsku kvik­myndinni Så som i himmelen sem vakti mikla at­hygli þegar hún kom út 2004 og var síðar að­löguð söng­leikja­forminu af upp­runa­legum hand­rits­höfundum upp­runa­legu myndarinnar, hjónunum Carin og Kay Pollak, með tón­list eftir Fredrik Kempe.

Salka segir Sem á himni vera frá­brugðinn flestum öðrum söng­leikjum sem hún hefur tekið þátt í.

Salka: „Það sem gerir kannski þennan söng­leik ó­líkan þeim sem ég þekki er að þetta er nánast leik­rit með söng.“

Elmar: „Þetta er ekki Broa­dway-sýning. Við erum að gera þetta á svo­lítið ein­lægan hátt. Það er boð­skapur í þessari sögu sem þarf að komast til skila.“

Að sögn Sölku er það sem kveikti mestan á­huga hennar á verkinu það að um er að ræða hvers­dags­lega sögu sem er bæði stór og djúp. Elmar tekur undir það.

Elmar: „Þetta er saga af venju­legu fólki og það eru skír­skotanir í karakterunum við alla í þjóð­fé­laginu. Við erum öll að glíma við ein­hver á­föll. Leik­stjórinn Unnur Ösp nálgast við­fangs­efnið af miklu hjarta, ein­lægni og heiðar­leika.“

Stórt list­rænt teymi tekur þátt í upp­setningunni, alls um fjöru­tíu manns, þar af tólf manna hljóm­sveit. Með tón­listar­stjórn fer Jón Ólafs­son, leik­myndin er eftir Ilmi Stefáns­dóttur, lýsing er gerð af Birni Berg­steini Guð­munds­syni, búningar eftir Filippíu I. Elís­dóttur og dans­höfundur er Lee Proud.

Um er að ræða fyrsta hlutverk Elmar Gilbertssonar sem leikari.
Fréttablaðið/Ernir

Dreymdi um að verða leikari

Elmar fer með hlut­verk Daníels, heims­þekkts hljóm­sveitar­stjóra sem flytur í lítið þorp á lands­byggðinni til að jafna sig eftir hjarta­veikindi. Elmar er bú­settur í Þýska­landi og er fast­ráðinn tenór við Staats­oper í Stutt­gart.

Þú ert einn af okkar þekktustu óperu­söngvurum en þetta er þitt fyrsta hlut­verk sem leikari. Hvernig var að takast á við það?

Elmar: „Það var bara alveg ó­trú­lega skemmti­legt og gefandi. Ég átti mér alltaf draum þegar ég var yngri um að verða leikari og þess vegna er á­kveðinn draumur að rætast hjá mér að fá að standa á Stóra sviði Þjóð­leik­hússins og vinna með öllu því frá­bæra fólki sem er þar. Þetta var náttúr­lega svo­lítið öðru­vísi, þetta er öðru­vísi með­göngu­tími og öðru­vísi nálgun en ég fékk mjög mikið út úr þessu og þetta er þroskandi fyrir mig.“

Setur aðra í fyrsta sæti

Salka Sól fer með hlut­verk Lenu, ungrar konu úr þorpinu sem tengist Daníel nánum böndum í gegnum tón­listina. Spurð um hvers konar karakter Lena hafi að geyma segir hún:

Salka: „Það sem ein­kennir hana er að hún elst upp á þessum litla stað, ég held að margir Ís­lendingar tengi við það að alast upp í annað­hvort litlum bæjum eða litlum hverfum. Hún hefur kannski ekki leitað mikið út fyrir þann stað en hún er of­boðs­lega hjarta­hlý og á auð­velt með að ná til annarra. Fólk sækir í hana og leitar huggunar en hún hefur kannski ekki alltaf náð að hugga sjálfa sig nógu vel.“

Elmar: „Þetta er svona manneskja sem setur alltaf alla aðra í fyrsta sæti.“

Elmar og Salka sameinuðust í gegnum sönginn þrátt fyrir að koma úr gjörólíkum tónlistarbakgrunni.
Mynd/Jorri

Ó­líkir en sam­stíga söngvarar

Þau Elmar og Salka koma úr ó­líkum áttum í tón­listinni, hann óperu­söngvari og hún popp­söng­kona, en fundu þó fljótt að þau pössuðu mjög vel saman sem söngvarar. Salka segir það hafa verið frá­bært að leika á móti Elmari.

Salka: „Við erum mjög ó­líkir söngvarar og syngjum mjög mikið saman en ég held að við séum með frá­bæra tengingu okkar á milli. Við erum bæði svo­lítið blaut á bak við eyrun miðað við með­leikara okkar eins og Örn Árna­son, Eddu Björg­vins og Sigga Sigur­jóns. En þetta æfinga­ferli hefur verið svo mikil sam­vinna og sam­staða að mér hefur aldrei liðið eins og ég sé eitt­hvað minni leik­kona en þau.“

Elmar tekur undir orð Sölku og segist njóta þess að syngja með henni og að­laga sig henni.

Elmar: „Það hefur verið á­kveðin á­skorun fyrir mig að fara út fyrir þæginda­rammann. Óperu­söngvarar eru alltaf að vinna í fáguninni, óperan gengur út á fágaðan söng og fegurð tón­listarinnar og ég hef kannski verið svo­lítið hvattur til að fara á móti því í þessu verk­efni. Það hefur verið rosa­lega þroskandi fyrir mig að fá að­eins að sleppa tökunum.“


Óperu­söngvarar eru alltaf að vinna í fáguninni, óperan gengur út á fágaðan söng og fegurð tón­listarinnar og ég hef kannski verið svo­lítið hvattur til að fara á móti því í þessu verk­efni.


Hjartað í sögunni

Elmar, hvernig karakter er Daníel?

Elmar: „Daníel er það sem maður myndi lýsa á góðri ís­lensku sem fag­idjót, hann er al­gjört nörd og það kemst ekkert annað að hjá honum en tón­list. Hans sýn á músíkina er að hún geti hjálpað fólki að komast yfir til­finningar og hindranir. Eins og karakterinn hennar Sölku þá gleymir hann svo­lítið að hugsa um sjálfan sig og er að díla við á­föll úr æsku. Hjartað í sögunni er svo­lítið þessi karakter. Hann er með of­boðs­lega stórt hjarta og kemur í þetta litla bæjar­fé­lag þar sem enginn er í raun og veru til­búinn fyrir svo stórt hjarta.“

Salka tekur í sama streng og segir það hafa komið skýrt fram á einu af loka­rennslum sýningarinnar hversu stórt hjarta sýningarinnar er.

Salka: „Eftir rennslið í gær þá fann ég bara hvað það skilaði sér vel til á­horf­enda, hvernig þau horfðu á allt þetta fólk í kórnum opnast. Þetta var bara eins og spila­borg eða keilur að falla.“

Salka segir tónlistina hafa verið heilandi.
Fréttablaðið/Ernir

Læknaðist af fæðingar­þung­lyndi

Sem á himni fjallar að miklu leyti um kraft tón­listarinnar og segist Salka hafa fundið það skýrt á eigin skinni hversu heilandi tón­list og söngur geta verið.

Salka: „Það sem er svo ó­trú­lega fal­legt í þessu er að ég held að fólk sem stundar kór­starf eigi eftir að finna hvað það er dýr­mætt að vera í fé­lags­skap og þenja radd­böndin.“

Í byrjun árs eignaðist Salka soninn Frosta með eigin­manni sínum, tón­listar­manninum Arnari Frey Frosta­syni, en fyrir áttu þau hjónin dótturina Unu Lóu.

Salka: „Eftir að ég átti Frosta fékk ég bara fæðingar­þung­lyndi og kom inn í æfinga­tíma­bilið svo­lítið þung á því. Svo eftir bara eina viku af því að syngja og hlæja þá leið mér eins og mér væri batnað. Þá var ég búin að fara í alls konar með­ferðir og ég veit ekki hvað. Þetta var bara eins og heilun og það var svo skrýtið að vera að vinna í verki sem fjallar bók­staf­lega um þetta og upp­lifa það á eigin skinni.“


Eftir að ég átti Frosta fékk ég bara fæðingar­þung­lyndi og kom inn í æfinga­tíma­bilið svo­lítið þung á því. Svo eftir bara eina viku af því að syngja og hlæja þá leið mér eins og mér væri batnað.


Verkið sem þjóðin þarf

Magnús Geir Þórðar­son þjóð­leik­hús­stjóri sagði ný­lega í við­tali við Frétta­blaðiðað hann hefði þá trú og til­finningu að Sem á himni væri akkúrat verkið sem þjóðin þyrfti í kjöl­far Co­vid. Elmar og Salka segjast bæði vera sam­mála því.

Salka: „Hún er á ein­hvern hátt frelsandi, mér líður eins og fólk muni labba út og vilja opna sig. Ég held að við séum öll svo­lítið dösuð og skrýtin á því eftir þetta tíma­bil.“

Elmar tekur undir orð Sölku og segist upp­lifa mikla nú­vitund í sýningunni.

Salka: „Ég vil hvetja fólk sem hefur á­huga á söng­leikjum, fólk sem hefur á­huga á leik­húsi og líka fólk sem hefur það ekkert endi­lega til að sjá hana. Það er á­kveðinn hópur sem gæti haft ein­hvers konar for­dóma fyrir söng­leikjum en ég held að sá hópur gæti líka haft gaman af þessu.“

Elmar: „Það er vonandi að fólk sem kemur að sjá þessa sýningu og hefur átt sér draum um að vera í kór eða langar að fara í kór láti bara slag standa og drífi sig.“

Athugasemdir