Það má segja að ég hafi fengið skógræktaráhugann með móðurmjólkinni, en faðir minn er Vilhjálmur Sigtryggsson, fyrrum framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur og móðir mín heitin, Herdís Guðmundsdóttir, var skrifstofustjóri hjá Skógræktinni. Það má því segja að ég hafi alist upp í Skógræktinni,“ segir Ingunn.

Ingunn fór að fikta við haustkransagerðina fyrir nokkrum árum og hefur verið óstöðvandi síðan.

„Ég elska að fara eftir annasaman vinnudag, út í náttúruna að tína lauf sem eru nýfallin af trjánum og útbúa haustkransa úr þeim.“

Ingunn leitar að efnivið í eigin garði og einnig í Heiðmörk, Elliðarárdal og Laugardal. Fréttablaðið/Ernir

Ingunn segist vilja stuðla að endurnýtingu og því noti hún alltaf sama hálmkransinn en skipti um skraut eftir árstíðum. 

„Sumir nota plast til að hylja hálminn, en þar sem ég er almennt á móti óþarfa plasti, reyni ég frekar að nota til þess stór lauf, til dæmis af öspum. Það er mikilvægt að hafa vír á rúllu til að festa greinarnar og litla u-pinna til að festa fallega skrautið í lokin. Hægt er að kaupa sprey í blómabúðum til að gera kransinn glansandi og helst hann þannig betur yfir veturinn.”


Tækifæri til samveru 


Skrautið sækir Ingunn svo í náttúruna, út í garð, í Heiðmörkina, Elliðaárdalinn, Laugardalinn eða einfaldlega á rölti um hverfið, þótt hún mæli ekki með að lesendur fari inn í nágrannagarða án leyfis.

Ingunn tínir lauf af trjám og runnum og mælir frekar með því en fjölærum blómum enda deyi þau fljótt. Fréttablaðið/Ernir

„Það þarf sirka einn poka af laufum og greinum fyrir einn krans. Það má líka alltaf fara í blómabúð og kaupa til dæmis erikur og greinar.“

Ingunn ráðleggur að tína lauf af trjám og runnum, frekar en af fjölærum blómum því þau deyi fljótt.

„Svo verður bara hver að finna sinn stíl, það er það sem er svo dásamlegt við kransagerð að karakterinn kemur svo vel í ljós við þessa hugleiðslu,“ segir Ingunn og mælir með að laufin séu tínd sama dag og kransinn er útbúinn svo þau séu fersk og brotni ekki.

Það sem til þarf er hálmkrans eða annar krans, vír á rúllu til að festa laufin og greinarnar og vír eða pinna til að festa skrautið í lokin.

Hér má sjá dæmi um fallega haustkransa Ingunnar

„Ég set yfirleitt einn krans á útidyrahurðina hjá mér. Einnig hef ég gefið kransa sem tækifærisgjöf, í stað rauðvínsflösku, þegar ég fer til dæmis í matarboð. Sjálf fer ég árlega á leiði hjá móður minni með krans og sú hefð hefur skapað ákveðna helgiathöfn hjá mér. Ég hef þá tínt lauf og greinar sem ég veit að hún elskaði og með þessu finnst mér ég ná að halda í okkar tengingu.

Börnin mín hafa tekið þátt í kransagerðinni og það veitir okkur ánægju að fara upp á leiði og gefa „ömmu Dísu“ hinn árlega haustkrans. Samveran og undirbúningurinn eru ekki síður mikilvæg. Við náum að tala um sorgina og minnast mömmu og ömmu með þessum hætti,“ segir Ingunn að lokum.