Birna Dröfn Jónasdóttir
Föstudagur 27. nóvember 2020
06.00 GMT

Á morgun eru liðnir níu mánuðir frá því að fyrsta til­felli CO­VID-19 greindist hér á landi. Þann 28. febrúar, greindist ís­lenskur maður með sjúk­dóminn eftir að hafa verið í ferða­lagi á Norður-Ítalíu. Þau smit sem greindust dagana á eftir mátti öll rekja til Norður-Ítalíu og Austur­ríkis en þann 6. mars greindist hér fyrsta innan­lands­smitið.

Í kjöl­far þess lýsti ríkis­lög­reglu­stjóri yfir neyðar­stigi Al­manna­varna í sam­ráði við sótt­varna­lækni og þann sama dag var sett á heim­sóknar­bann á hjúkrunar­heimilum og á Land­spítala. Fyrsta bylgja far­aldursins náði há­marki um 22. mars en þann dag voru stað­fest smit frá því að fyrsta smit greindist 568 talsins og tæp­lega sjö þúsund manns voru í sótt­kví. Ís­lensk erfða­greining hóf að skima fyrir CO­VID-19 þann 13. mars og þann 24. mars greindust 106 ný smit á einum sólar­hring.

16. mars var sett á sam­komu­bann og máttu ekki fleiri en 100 koma saman, viku síðar voru sam­komu­tak­markanir hertar og mörkin sett við tuttugu manns. Tak­markanirnar giltu til 4. maí en þá máttu fimm­tíu manns koma saman. Tveimur vikum síðar voru sund­staðir opnaðir og því næst líkams­ræktar­stöðvar, þá fengu 200 manns að koma saman og lífið færðist í eðli­legra horf.

COVID mýtur

Á þeim tíma sem fyrsta bylgja far­aldursins gekk yfir kynntist þjóðin ýmsum reglum, við­miðum og orðum líkt og for­dæma­lausum tímum og tveggja metra reglunni. Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn og Alma Möller, land­læknir, birtust dag­lega á sjón­varps­skjám lands­manna á dag­legum upp­lýsinga­fundum sem vörðu í tvo mánuði og hlutu þau viður­nefnið „þrí­eykið.“

Upp komu ýmsar mýtur um á­hrif far­aldursins á hin ýmsu mál líkt og aukinn fjölda skilnaða og fæðingu „co­vid“ barna. Sam­kvæmt svari Sýslu­mannsins á Höfuð­borgar­svæðinu við fyrir­spurn Frétta­blaðsins hefur hvorki út­gefnum leyfum vegna skilnaða né stað­festum samningum um for­sjá og með­lag vegna sam­búðar­slita fjölgað á þessu ári. Þá er, sam­kvæmt mæðra­sviði Þróunar­mið­stöðvar ís­lenskrar heilsu­gæslu, ekkert sem bendir aukningar í fjölda fæðinga í far­aldrinum, sveifla fæðingar­tíðni sé svipuð og síðast­liðin ár.

Önnur bylgja

Fyrsta innan­lands­smit í annarri bylgju far­aldursins greindist 23. júlí en þá hafði ekki greinst smit hér á landi í þrjár vikur. Átta dögum síðar voru inn­leiddar sam­komu­tak­markanir sem miðuðu við að ekki kæmu saman fleiri en 100 manns. At­burðum sem fram áttu að fara fram um verslunar­manna­helgi var af­lýst og það sama á við um Menningar­nótt í Reykja­vík.

Kúrfan reis hratt í annarri bylgjunni og þann 31. júlí voru fimm­tíu manns með stað­fest smit. Dögum saman greindust þó fá smit og stóð önnur bylgjan lengi yfir eða fram í byrjun septem­ber.

Enn stödd í þriðju bylgju

Nú, níu mánuðum eftir fyrsta smit hér á landi, eru Ís­lendingar staddir í þriðju bylgju kórónu­veirufar­aldursins sem að mati vísinda­fólks við Há­skóla Ís­lands hófst 11. septem­ber. Yfir 5.300 smit hafa nú verið stað­fest hér á landi, rúm­lega 200 þúsund sýni hafa verið tekin og fleiri en þrjú hundruð hafa verið lögð inn á sjúkra­hús. Þá hafa 26 ein­staklingar látið lífið af völdum CO­VID-19 og er meðal­aldur þeirra 82 ár.

Enn eru í gildi tak­markanir á sam­komum og mega tíu manns koma saman. And­lits­grímur skal nota í al­mennings­sam­göngum, í verslunum og annarri þjónustu. Þá skal einnig nota and­lits­grímur þar sem ekki er unnt að tryggja tveggja metra ná­lægðar­tak­markanir sem eru í gildi. Nánari upp­lýsingar um gildandi sam­komu­tak­markanir má finna á heima­síðunni co­vid.is. Reglur um sam­komu­tak­markanir gilda til 1. desember næst­komandi.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.

Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, hefur undir­búið sig fyrir at­burð líkt og heims­far­aldur í mörg ár. Hann segist hafa lært það í far­aldrinum hversu erfiðar í fram­kvæmd varnir gegn heims­far­aldri geti verið. „Það eru ýmsir hags­munir og aðrir þætti sem flækjast inn í og fram­kvæmdin verður þá flóknari,” segir hann. „Maður hefur líka lært hvað sam­taka­máttur fólks getur skipt miklu máli, ef að fólk er sam­stíga og er með í leiknum þá gengur þetta betur,” segir Þór­ólfur sem stundum líkir bar­áttunni við far­aldurinn við fót­bolta­leik. „Það geta ekki allir spilað sókn og fengið að skora mörkin, það verða alltaf ein­hverjir að vera í vörn og ef leikurinn á að vinnast þá verða allir að spila með,“ segir hann.

„Fólk bregst svo auð­vitað ó­líkt við og ég hef lært mikið inn á mann­lega hegðun. Bæði hegðunar­mynstur og skoðanir fólks geta verið svo ólík, á já­kvæðan og stundum á nei­kvæðan hátt. Það hefur komið svo­lítið á ó­vart,“ bætir hann við.

Þór­ólfur segir fjöl­skyldu og vini getað skipt sköpum á á­lags­tímum sem þessum. “Það er fólkið sem stendur manni næst sem stendur þétt við bakið á manni og hjálpar manni að halda á­fram og gera það sem þarf að gera.”

Spurður að því hvort að hann hafi ein­hver skila­boð til þjóðarinnar segir hann lands­menn eiga hrós skilið. “Ég dáist að því út­haldi sem fólk hefur sýnt þrátt fyrir allt. Nú þurfum við bara að halda á­fram þessum sam­taka­mætti.”

Írena Rún Jóhannsdóttir

Í­rena Rún Jóhanns­dóttir, 12 ára, hefur lært það í far­aldrinum að lífið sé ekki alltaf eins og maður vill hafa það og henni finnst margt hafa breyst. „Ég er líka búin að læra að vera þakk­lát fyrir að geta verið í skólanum og að hafa stundum getað mætt á fót­bolta­æfingar og í leik­lista­skólann,” segir Í­rena sem æfir fót­bolta með Víkingi.

Í­rena hefur bæði lesið og bakað mikið síðustu níu mánuði og hún hefur notað tímann með fjöl­skyldunni til að spila og fara í göngu­túra. „Það var skrýtið að geta ekki hitt allar vin­konur mínar þegar ég vildi eða mæta í leik­listina, þá fattaði ég að hvað það er dýr­mætt að geta gert venju­lega hluti eins og að hitta vin­konur mínar, fara í sund og svo­leiðis.”

Garðar Stefánsson.

Garðar Stefáns­son hefur búið sér til hin ýmsu verk­efni í far­aldrinum og lært að taka engu sem sjálf­sögðum hlut. „Þá aðal­lega að fara í sund, geta farið í klippingu, kjör­þyngdina mína og fara út að borða. En á móti kemur að við fjöl­skyldan erum orðnir meiri vinir og öflug í því að finna okkur eitt­hvað til dundurs,” segir hann.

„Ég finn fyrir auknu æðru­leysi og mikil­vægi þess að hlúa að ást­vinum. Maður er mun ró­legri í þriðju bylgjunni, þetta er verk­efni sem við öll þurfum að leysa i´ sam­einingu og gera það al­menni­lega. Já­kvæða er að við erum öll í sama báti, sama hvar við erum stödd á hnettinum. Næst er að setja á dag­skránna um­hverfis-, mann­réttinda- og lýð­heilsu­mál og gera það vel.“

Sara Katrín Stefánsdóttir.

„Mér finnst co­vid hafa hægt að­eins á landanum, asinn er ekki eins mikill og áður og fólk er yfir­leitt nokkuð spakt og til­lits­samt.,” segir Sara Katrín Stefáns­dóttir. Hún hefur farið í göngu­túra og út að skokka til minnka álag hjá sjálfri sér í far­aldrinum. „Svo er líka bara gaman að borða góðan mat með fjöl­skyldunni eða taka happy hour með vinunum á zoom.” segir hún.

„Hjá mér sjálfri hefur það breyst að mér finnst mikil­vægara að staldra við og hugsa hvað virki­lega skiptir máli í lífinu. Co­vid hefur leikið heims­byggðina grátt undan­farna mánuði en það er ljós við enda ganganna þar sem fréttir af bólu­efni hafa verið að berast.”

Guðmundur Y. Hraunfjörð.

Guð­mundur Y. Hraun­fjörð hefur að mestu verið í sjálf­skipaðri ein­angrun í far­aldrinum. Hann hefur haldið sér í formi með heima­leik­fimi og göngu­túrum og passað að halda sér upp­teknum með vinnu og því að sinna á­huga­málum sínum.

„Ég hef lært það að heims­byggðin var og er alveg ó­við­búin árás af þessu tagi. Ég hef lært enn og aftur hvað manns­líf eru lítils virði í mörgum sam­fé­lögum og ráða­menn ó­hæfir í að vernda sam­borgara sína og ég hef lært að sam­heldni, traust og bjart­sýni getur á­orkað miklu,” segir hann. Þá segist Guð­mundur vera orðinn þreyttur á á­standinu. „Stóra myndin er sú að við komumst í gegnum þetta saman.”

Dröfn Haraldsdóttir.

„Þegar fyrsta smitið greindist hér á landi var ég í starfs­námi og vann á bráða­mót­töku Land­spítalans, þar lærði ég mikið um sótt­varnir og hversu stórt og al­var­legt vanda­mál þessi veira er er og hvað hún hefur haft í för með sér,” segir Dröfn Haralds­dóttir.

Hún segir al­mennt þakk­látari fyrir litla hluti sem henni þótti sjálf­sagðir fyrir far­aldurinn, svo sem það að hafa vinnu og að vera heilsu­hraust. „Mér finnst ég líka hafa lært að meta sam­veru­stundir með mínu nánasta fólki betur,” segir hún.

Guðmundur Pétur Sigurðsson.

Guð­mundur Pétur Sigurðs­son segir hafa lært mikil­vægi þess að hafa rútínu í lífinu og mikil­vægi per­sónu­legra sótt­varna í far­aldrinum. Þá segist hann vera þakk­látur fyrir litlu hlutna og að nauð­syn­legt sé að vera þolin­móður í að­stæðum sem þessum.

„Ég verð nú samt að viður­kenna að ég hef ekki hugað nógu vel að sjálfum mér. Það var alltaf ætlunin að vera dug­legur að fara út að skokka og gera ein­hverjar heima æfingar, en hef nú aðal­lega verið upp í sófa að horfa sjón­varpið og galtast eitt­hvað með því. Hef bætt á mig nokkurum co­vid kílóum.”

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

„Maður er búinn að læra heil­mikið um mikil­vægi sam­starfsins, hvað það skiptir miklu máli að allir sem að koma að svona verk­efni eigi gott sam­tal og að sam­skipta­leiðirnar séu skýrar,” segir Víðir Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjónn, um þann lær­dóm sem hann hefur dregið af far­aldrinum. „Svo held ég að ég sé orðinn opnari og víð­sýnni, ég tek til dæmis gagn­rýni betur en ég gerði,” bætir hann við.

Víðir segist fyrst og fremst hafa sótt styrk hjá sínu nánasta fólki en að hann hafi einnig hugað að matar­ræði, hreyfingu og í­hugun á þessum álgas­tímum. „En svo hef ég líka hitt sál­fræðing til þess að fara yfir málin,” segir hann.

„Um­burðar­lyndi, sam­staða og sam­vinna er það sem hefur komið okkur í gegnum þennan far­aldur og mun verða lykillinn að því að klára þetta mál í sam­einingu,” segir Víðir. „Þjóðin er búin að vera ó­trú­lega flott og hefur sýnt mikinn þroska í því að taka um­ræðu og spyrja erfiðra spurningu. Við eigum ekki að fylgja neinu í blindni heldur gagn­rýna og spyrja.”

Athugasemdir