Útnefning Molly Sanden, sænsku söngkonunnar sem söng Húsavíkurlagið í frægri Eurovision-mynd, vekur deilur í Norðurþingi. Tekist er á um hvort Molly hafi með ólögmætum hætti verið sæmd heiðursborgaratitli.

Reglur um val og útnefningu heiðursborgara hjá sveitarfélögum eru mismunandi. Sum sveitarfélög hafa ekki sett sér skrifaðar reglur. Norðurþing er í þeim hópi þótt Húsvíkingar hafi átt sínar reglur fyrir sameiningu.

Mörg sveitarfélög geta þess í reglum sínum að sveitarstjórnir/bæjarstjórnir skuli vera einhuga við val á heiðursborgara.

Engin umræða fór fram í sveitarstjórn Norðurþings áður en Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri ákvað í samráði við formann byggðarráðs að bjóða íslenska sendiherranum í Svíþjóð að sæma Molly heiðursnafnbótinni í beinni útsendingu í sænsku sjónvarpi.

Falsfrétt að Molly sé heiðursborgari

Bergur Elíasson, sveitarstjórnarfulltrúi í Norðurþingi, segir í grein í Vikublaðinu að það sé falsfrétt að Molly sé í raun húsvískur heiðursborgari. Svo virðist sem sendiherra Íslands í Svíþjóð hafi ekki tryggt að heiðursnafnbótin eigi við rök að styðjast.

Hjálmar Bogi Hafliðason sveitarstjórnarfulltrúi segir líklegt að málið verði tekið upp á næsta fundi sveitarstjórnar.

„Það er grundvallaratriði að við vitum hvað felist í því að vera heiðursborgari.“

Utanríkisráðuneytið segir að framleiðendur sænska þáttarins hafi haft samband við sendiráð Íslands í Stokkhólmi og óskað eftir því að sendiherrann afhenti söngkonunni heiðursborgaraskjalið sem undirritað var af fulltrúum Norðurþings. Áður en skjalið var afhent hafi verið birt upptaka þar sem bæjarstjóri Norðurþings kunngjörði ákvörðunina.

Um afar verðmæta landkynningu hafi verið að ræða, ekki síst fyrir Húsvíkinga sjálfa.

Skylt að afhenda skjalið

„Sendiherranum var þannig bæði ljúft og skylt að afhenda söngkonunni skjalið enda er það skilgreint hlutverk utanríkisþjónustunnar að gæta íslenskra hagsmuna í hvívetna og halda á lofti nafni lands og þjóðar,“ segir í svari frá ráðuneytinu.

Stefán Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjá hvalaskoðunarfélaginu Gentle Giants, er í hópi þeirra sem gagnrýna meint frumhlaup bæjarstjóra. Spurður hvort hann líti svo á sem Molly sé löglegur heiðursborgari svarar Stefán án umhugsunar: „Alls ekki.“

Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri er í veikindaleyfi.

Stefán Guðmundsson, framkvæmdastjóri hjá hvalaskoðunarfélaginu Gentle Giants, er í hópi þeirra sem gagnrýna meint frumhlaup bæjarstjóra.
Fréttablaðið/Aðsend.