Leikarinn Arnmundur Ernst Backman segir það hafa verið heiður að ræða við Eyþór Arnalds, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, í morgunútvarpinu í morgun um að minnka dýraafurðir í mötuneytum grunnskóla landsins. Arnmundur skoraði á Eyþór í sjómann, eins og frægt er orðið, til að útkljá hvort prótínmagn í vegan fæðu sé ábótavant en sjálfur hefur leikarinn verið grænkeri í fjögur ár.

Eyþór mótmælti til­lögu skóla og frístundasviðs um að minnka fram­boð á dýr­af­urðum í grunn­skólum borgarinnar. Hann sagði á Facebook að meiri­hlutinn, eða „vinstri menn í borgar­stjórn“ ættu að byrja á að huga að þeim sjálfum áður en þeir ræða um að minnka kol­efnis­fót­spor með þessum hætti.

Hakk með pulsum í kvöldmat

Arnmundur telur það ekki til róttækra aðgerða að auka grænmetisfæðu í mötuneytum landsins þvert á móti telur hann nauðsynlegt að breyta neyslumynstri Íslendinga. „Ef fólk er alveg að drepast úr næringarleysi eftir téða mötuneytisferð getur það eldar sér hakk með pulsum í kvöldmat,“ segir Arnmundur í færslu á Facebook síðu sinni.

„Mikið er talað um að við verðum að gæta meðalhófs þegar tekist er á við loftslagsvandann, en því miður eru núverandi neysluhættir vestræns samfélags fjarri því að geta talist til nokkurs meðalhófs,“ segir Arnmundur enn fremur. Framtíð komandi kynslóða sé í húfi. „Það er lítið mál fyrir okkur í samanburði að kyngja einni grænmetismáltíð á dag og hafa ekki val um annað.“

Olsen Olsen keppni

Arnmundur sammælist Eyþóri um að leiðtogar þurfi að sýna fordæmi í verki og snúa sér að vistvænlegri matarvenjum. Í lok færslu sinnar skorar Arnmundur á talsmann kjötæta á Íslandi í keppni Olsen Olsen og virðist því vera hvergi nærri hættur í baráttu sinni gegn hamfarahlýnun.