Framsóknarflokkurinn bætir við sig einu prósentustigi samkvæmt nýrri könnun Prósents miðað við fylgi í síðustu kosningum. Þá bauð flokkurinn fram sem Framsókn og óháðir eftir slæmt gengi flokksins árið 2014, og fyrir það, en býður nú aftur fram sem aðeins Framsókn.

„Þetta er í takt við það sem við höfum verið að sjá og er í takt við aðrar kannanir þar sem svarhlutfallið er á bilinu 200 til 400 manns. Við höfum verið að mælast með einn til tvo menn inni í þessum könnunum þannig þetta er í takt við það. Við erum bjartsýn og höfum góða sögu að segja á kjörtímabilinu, og hlökkum til að sjá fyrstu tölur á laugardaginn,“ segir Valdimar Víðisson, skólastjóri og oddviti Framsóknarflokksins í Hafnarfirði.

Flokkurinn er samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar Prósents fyrir Fréttablaðið sá þriðji stærsti í Hafnarfirði með alls níu prósent atkvæða en það er einu prósentustigi meira en í síðustu kosningum.

Framsókn og óháðir eru nú með einn fulltrúa og Framsókn heldur honum í bæjarstjórn samkvæmt þessu en meirihlutinn sem þau halda með Sjálfstæðisflokknum fellur því Sjálfstæðisflokkurinn missir einn fulltrúa.

Mikill meirihluti svarenda vill sjá annað hvort oddvita Sjálfstæðisflokksins Rósu Guðbjartsdóttur eða oddvita Samfylkingarinnar Guðmund Árna Stefánsson sem bæjarstjóra en þó segja um níu prósent að þau vilji sjá Valdimar sem bæjarstjóra.

„Já, mér fannst gaman að sjá að næstum einn af hverjum tíu vilja mig sem bæjarstjóra. Það er heiður og mér þykir vænt um það,“ segir Valdimar og hlær.

„Ég er svo jákvæður að eðlisfari að ég sagði við mitt fólk strax í morgun að við værum þriðji stærsti flokkurinn, þótt að það sé langt á milli tvö og þrjú, en þá höldum við því bara áfram sem við höfum verið að gera sem hefur verið heiðarleiki, fagmennska og gleði,“ segir Valdimar.