Viðurkenningarhátíð Félags kvenna í atvinnulífinu var haldin í Gamla bíó í gær við mikinn hátíðleika. Árlega heiðrar FKA þrjár konur og þeim veittar viðurkenningar fyrir að vera konum í atvinnulífinu hvatning og fyrirmynd.
Í ár voru það Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir sem hlaut FKA viðurkenningu 2020 fyrir vel unnin störf í þágu atvinnureksturs kvenna eða þeim sem hafa verið konum í atvinnulífinu sérstök hvatning eða fyrirmynd. Anna Stefánsdóttir sem hlaut Þakkarviðurkenningu FKA 2020 sem er veitt konu fyrir eftirtektarvert ævistarf stjórnanda í atvinnulífinu. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sem hlaut Hvatningarviðurkenningu FKA 2020 sem er veitt konu í atvinnulífinu fyrir athyglisvert frumkvæði.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, flutti erindi á hátíðinni og var fjölbreyttur hópur fólks úr íslensku atvinnulífi komið saman til þess að heiðra konurnar.
Í dómnefndinni í ár sátu þau Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og staðgengill borgarstjóra. Auk hennar voru þau Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, Margrét Tryggvadóttir, forstjóri NOVA, Kristinn Óli Haraldsson (Króli), tónlistarmaður, leikari, áhrifavaldur og ræðukeppandi, Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands, Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri tölvuleikjafyrirtækisins CCP og Guðbjörg Matthíasdóttir, útgerðar- og athafnakona í Vestmannaeyjum.


